Helgi Már Magnússon Íslandsmeistari í körfubolta hefur fengið hlýjar kveðjur á samskiptamiðlum eftir að Íslandsmótinu lauk.
Helgi lætur nú staðar numið í boltanum og mun flytja til Bandaríkjanna í sumar. Margir samherjar og mótherjar úr boltanum hafa sent honum kveðjur á samskiptamiðlum frá því KR varð Íslandsmeistari á fimmtudagskvöldið.
Hér er sýnishorn af þeim kveðjum sem Helgi hefur fengið á netinu:
Logi Gunnarsson, Njarðvík:
„Helgi Magnússon átti svo sannarlega skilið að fara út á toppnum. Mikill sigurvegari og fyrst og fremst frábær liðsmaður. Það er heiður að hafa spilað með honum í 15 ár með íslenska landsliðinu.“
Einar Árni Jóhannssson, Þór Þ.:
„ Í liðsíþrótt er leikmaður eins og Helgi Magnússon einfaldlega grand og auðvelt að una honum að klára ferilinn mögulega með sigri.“
Friðrik Ingi Rúnarsson, Njarðvík:
„Sendi sérstakar kveðjur til Helga Magnússonar sem nú kveður, í bili hið minnsta. Frábær karakter sem öll lið vilja hafa í sínum röðum. Gangi þér og fjölskyldu þinni vel á nýjum slóðum.“
Falur Harðarson, fyrrverandi landsliðsmaður:
„Til hamingju með enn einn titilinn í safnið. Til hamingju með einstaklega farsælan og flottan feril á körfuboltavellinum, það er eftirsjá af slíkum fagmanni.“
Ingi Þór Steinþórsson, Snæfelli:
„ Stórt respect á Helga Magnússon.“
Ítarlega er rætt við Helga í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.