Kári Jónsson, körfuknattleiksmaðurinn ungi úr Haukum, er á leið til Philadelphia í Bandaríkjunum þar sem hann hefur nám við Drexel-háskóla á komandi hausti.
Kári, sem er 18 ára gamall og hefur verið í stóru hlutverki í liði Hauka þrátt fyrir ungan aldur, var að útskrifast sem stúdent og hefur fengið skólavist í Drexel, sem er með lið í 1. deild bandarísku háskólanna, nánar tiltekið í CAA-riðli 1. deildar en í honum eru tíu lið úr austurhluta Bandaríkjanna.
Óhætt er að segja að Kári sé á leiðinni í borg þar sem körfuboltahefðin er mikil en þar hafa spilað með NBA-liði Philadelphia 76ers kappar á boð við Wilt Chamberlain, Moses Malone, Charles Barkley, Julius Erving og Allen Iverson.
Drexel Dragons, hið nýja lið Kára, er miðlungslið í 1. deildinni og hefur ekki náð að komast í úrslitakeppnina um meistaratitilinn undanfarin tuttugu ár. Hann ætti því að eiga ágæta möguleika á að spila talsvert strax á fyrsta ári.