Körfuknattleikskappinn Ragnar Nathanaelsson heldur á morgun til Bandaríkjanna, en körfuboltaævintýri er fram undan hjá leikmanninum stóra og stæðilega.
Þetta kom fyrst fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Ég fer út á morgun,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is en hann flýgur á morgun til Péturs Guðmundssonar og fær leiðsögn hjá fyrrverandi NBA-leikmanninum í nokkra daga áður en hann heldur til Dallas 18. júní.
Pétur benti Dallas á Ragnar og vilja forráðamenn félagsins skoða hann nánar. „Ég verð í búðum þar 19.-22. júní. Ég sendi Pétri klippur, hann sendi þær áfram og þeir vilja sjá meira,“ bætti Ragnar við, en hann er 218 cm að hæð.
„Ég er orðinn spenntur og hlakka til að skoða þetta og sjá hvað er að gerast.“
Ragnar er ekki farinn fram úr sjálfum sér og veit að það er langur vegur frá þessum reynslutíma yfir í NBA-deildina sjálfa. „Ég ætla bara að byrja á þessu og sjá hvað gerist. Kannski bjóða þeir mér í D-League en ég ætla að byrja þarna og gera mitt besta,“ sagði Ragnar en viðurkenndi einnig að það hefði verið draumur hans lengi að kljást við þá bestu:
„Það er búið að vera draumur í mörg ár en maður verður að taka þessu rólega og sjá hvað gerist.“