Bandaríski miðherjinn, Michael Craion, mun ekki leika með liði KR á komandi leiktímabili í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá körfuknattleiksdeild KR.
Craion er frábær leikmaður og hefur m.a. verið kjörin besti erlendi leikmaður deildarinnar síðustu þrjú tímabil. Hann lék með Keflavík 2013-2014 en skipti yfir til KR, þar sem hann hefur leikið tvö leiktímabil. Craion varð Íslandsmeistari bæði árin með KR og bikarmeistari sl. vor.
Vesturbæingar eru því að leita að nýjum erlendum leikmanni þessa dagana en þeir þurftu einnig að sjá á eftir Helga Má Magnússyni, sem lagði skóna á hilluna eftir að KR tryggði sér titilinn í vor.
Fréttatilkynning KR sem birtist á Facebook-síðu KR-körfu.
Eftir tvö farsæl ár með KR og þrjú ár á Íslandi, hefur Michael Craion ákveðið að söðla um og reyna fyrir sér í stærri deild, og mun því leika í Frakklandi á komandi vetri. Craion er einn allra besti erlendi leikmaður sem leikið hefur með KR og hefur frammistaða hans og framkoma, innan sem utan vallar, verið til fyrirmyndar. Við þökkum honum fyrir hans framlag í velgengni KR og óskum honum alls hins besta um ókomna tíð.