Bonneau yfirgefur Njarðvíkinga

Stefan Bonneau í leik gegn KR og núverandi samherja hjá …
Stefan Bonneau í leik gegn KR og núverandi samherja hjá Njarðvík, Birni Kristjánssyni. mbl.is/Golli

Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Stefan Bonneau er á förum frá Njarðvík en körfuknattleiksdeild Njarðvíkur tilkynnti fyrir stundu að ákveðið hefði verið að framlengja ekki samninginn við hann.

Bonneau hefur verið í röðum Njarðvíkur í rúm tvö ár en missti alveg af síðasta tímabili vegna meiðsla. Hann hættir frá og með morgundeginum og spilar ekki meira en samningur hans rennur út í dag, 30. nóvember.

Tilkynning sem félagið birti á Facebook er svohljóðandi:

Ákveðið hefur verið að framlengja ekki samningi við Stefan Bonneau bakvarðar okkar til síðustu tveggja ára. Stefan kom sem stormsveipur inn í klúbbinn okkar og í raun inn í íslenskan körfuknattleik. Drengurinn hefur staðið sig gríðarlega vel í öllu sem hann hefur gert fyrir klúbbinn. Síðustu tvö leiktímabil hafa verið Bonneau erfið sökum alvarlegra meiðsla og hefur hann þurft á tveimur aðgerðum að halda hérlendis vegna þessa og verið í stöðugri þjónustu sjúkraþjálfara. Ungmennafélag Njarðvíkur hefur staðið þétt við bak leikmannsins í gegnum súrt og sætt en nú skilja leiðir. Ástæða þess er einfaldlega sú að liðið þarf hærri og sterkari mann í hópinn til að fylla í stöðu miðherja fyrir komandi átök.

Vissulega eru það körfuknattleiksdeild Njarðvíkur ákveðin vonbrigði að geta ekki haldið starfskröftum Bonneau í Ljónagryfjunni enda einn af fremstu leikmönnum deildarinnar.

KKD. UMFN óskar Stefan Bonneau góðs gengis í framtíðinni og þakkar honum samfylgdina og samstarfið síðustu tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka