Ótrúlega góð tilfinning systranna

Guðrún Ósk Ámundadóttir í leik gegn Val í vetur. Hún …
Guðrún Ósk Ámundadóttir í leik gegn Val í vetur. Hún hefur orðið bikarmeistari með tveimur liðum. mbl.is/Stella Andrea

„Það er ótrúlega góð tilfinning fyrir mig og systur mínar að fá að spila bikarleik í Höllinni fyrir uppeldisfélagið okkar,“ sagði Guðrún Ósk Ámundadóttir, leikmaður Skallagríms, fyrir undanúrslit Maltbikarsins sem fram fara í Laugardalshöll í dag.

Systurnar Guðrún Ósk, Sigrún Sjöfn og Arna Hrönn verða allar í liði Skallagríms í kvöld kl. 20 þegar það mætir ríkjandi meisturum Snæfells í Höllinni. Þremur tímum fyrr mætast þar Keflavík og Haukar í hinum undanúrslitaleiknum. Úrslitaleikurinn er svo á laugardag.

„Ég hef unnið bikarmeistaratitilinn með bæði Haukum og KR en aldrei fengið að spila með Skallagrími í Höllinni, fyrir utan einn leik með 10. flokki, svo þetta er mjög ánægjulegt og í raun algjör forréttindi,“ sagði Guðrún en íbúar Borgarness fá nú kærkomið tækifæri til að láta í sér heyra í Höllinni, eins og þeir hafa gert svo vel á heimavelli í vetur:

Systurnar Guðrún Ósk og Sigrún Sjöfn Ámundadætur ætla sér að …
Systurnar Guðrún Ósk og Sigrún Sjöfn Ámundadætur ætla sér að skila bikarverðlaunum heim í Borgarnes, í fyrsta sinn í sögu félagsins. mbl.is/Stella Andrea

„Þetta er mikill stemningsbær og það eru allir spenntir fyrir þessu,“ sagði Guðrún, sem dreymir um að fara heim með verðlaun á laugardaginn, en Skallagrímur hefur aldrei orðið bikarmeistari, hvorki í karla- né kvennaflokki.

„Auðvitað sér maður það alveg fyrir sér og það yrði mjög gaman og mikill heiður að vinna til verðlauna fyrir uppeldisfélagið sitt. Við ætlum að gera allt sem við getum til að sá draumur rætist,“ sagði Guðrún, sem gerir sér fyllstu grein fyrir því að í kvöld bíður afar erfitt verkefni:

„Þetta er náttúrulega baráttan um Vesturlandið. Þær eru með ótrúlega góða leikmenn og búnar að spila saman lengi, með mjög flott lið. Þær kunna líka alveg að vinna. Þetta verður hörkuleikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert