Skaut og skaut en hitti ekki neitt

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var hetja Skallagríms.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var hetja Skallagríms. mbl.is/Stella Andrea

„Ég vissi að það væri lítið eftir og ég vissi að ég þurfti að taka skotið, sem betur fer fór það ofan í,“ sagði hetja Skallagríms, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, eftir 70:68 sigur á Snæfellingum í undanúrslitum Maltbikars kvenna í körfubolta í kvöld. Sigrún skoraði þriggja stiga körfu í blálokin og tryggði Skallagrími 70:68 sigur. Leikurinn var hnífjafn, eins og Sigrún átti von á. 

„Þetta var eins og ég bjóst við fyrir leikinn, þetta var járn í járn allan leikinn. Ég bjóst við að það yrði eitt frákast eða ein karfa sem myndi skilja liðin að og það var svo sannarlega þannig.“

Sigurkarfa Sigrúnar var eina þriggja stiga karfa Skallagríms í öllum leiknum. 

„Ég skaut og skaut en ég hitti ekki neitt. Það var aðeins farið inn í hausinn á mér en ég talaði við þjálfarann og ég vissi að ég þurfti að halda áfram að skjóta. Það var fínt að ég hitti úr þessu en ekki einhverju öðru.“

Hún segist hafa verið örlítið stressuð í lokin enda leikurinn hnífjafn og spennandi. 

„Ég var smá stressuð en ég vissi að við værum sterkar í vörninni og við þyrftum að halda. Auðvitað er þetta erfitt og það voru taugar en þetta hafðist í dag.“

Skallagrímur mætir Keflavík í úrslitum á laugardag. 

„Það verður erfitt og ég býst við öðrum hörkuleik. Ég veit það ekki, við vorum að komast í úrslit og ég er ekkert að hugsa um það,“ sagði Sigrún brosandi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert