Darri Freyr Atlason hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik til næstu tveggja ára.
Darry Freyr tekur við þjálfun Valsliðsins af Ara Gunnarssyni en honum var tilkynnt að hann yrði ekki ráðinn áfram eftir tapleik fyrir Stjörnunni 8. mars síðastliðinn.
Á vef Valsmanna kemur eftirfarandi fram;
„Körfuknattleiksdeild Vals gekk í dag frá ráðningu Darra Freys Atlasonar sem þjálfara kvennaliðs félagsins og nær samningurinn til næstu tveggja tímabila. Darri Freyr hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu af þjálfun en hann hefur sl. 10 ár komið að yngri flokka starfi KR. Hann þjálfaði auk þess kvennalið KR tímabilið 2015 til 2016 og var í kjölfarið valinn besti þjálfari 1. deildar af þjálfurum og leikmönnum deildarinnar.“
„Ég er spenntur fyrir verkefninu. Valur er stórt félag með langa sögu og hefur sýnt metnað í kvennakörfunni sem er til fyrirmyndar. Aðstaðan á Hlíðarenda er frábær og leikmannhópurinn er sterkur - stelpur með umtalsverða reynslu, þrátt fyrir ungan aldur, m.a. með yngri landsliðum og A-landsliðinu. Ég mun fara yfir það á næstu vikum hverjir styrkleikar og veikleikar okkar eru og gera ráðstafanir í kjölfarið,“ segir Darri Freyr í viðtali á vef Vals.