Keflavík mætir Snæfelli í úrslitum

Ariana Moorer sækir að körfu Skallagríms í kvöld. Guðrún Ósk …
Ariana Moorer sækir að körfu Skallagríms í kvöld. Guðrún Ósk Ámundadóttir, Skallagrím eltir hana og Thelma Dís Ágústdóttir, Keflavík fylgist með. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Keflavík sigraði Skallagrím með 80 stigum gegn 64 í oddaleik um sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna. Fyrir leik höfðu bæði lið tekið sitt hvorn sigurinn og því um úrslitaleik að ræða.

Leikurinn var í járnum framan af og strax í fyrri hálfleik höfðu liðin tvö 17 sinnum skipst á forystu. Það var svo þriðji fjórðungur leiksins sem var vendipunkturinn.  Keflavík kom úr hálfeik með varnarleik upp á tíu og var Skallagrímur í bölvuðum vandræðum að ná að skora.

Þegar um tvær mínútur lifðu af leikhlutanum hafði Skallagrímur aðeins náð að skora fjögur stig. Þennan kafla leiksins náðu gestirnir úr Borgarnesi aldrei að brúa. Þrátt fyrir að gera gott áhlaup í fjórða leikhluta og minnka muninn niður í 6 stig, þá hefur það tekið of mikla orku og Keflavík kláraði leikinn af krafti og sigruðu verðskuldað.

Eina sem hægt er að setja út á leik Keflavíkur í kvöld að þær hægðu full mikið á leik sínum í fjórða leikhluta en á þeim kafla gekk Skallagrím best og komu sér aftur í leikinn. Ariana Moorer fór fyrir sínu liði og skoraði 27 stig fyrir Keflavík og var að spila af miklum krafti, sérstaklega framan af leik.

„Við vissum að þetta yrði harður leikur og að þær myndu koma af krafti til leiks. En við gerðum vel og vorum betra liðið." sagði Ariana eftir leik. „Já þetta er sárt að tapa þessu. Við ætluðum okkur lengra og ég er í þessu til að vinna. Þær eru með hörkulið og það er alveg vitað og þær eiga fyrir sér veglegt verkefni í úrslitum," sagði Jóhanna Björk Sveinsdóttir sem endaði leik fyrir Skallagrím með 11 stig og 6 fráköst. Keflavík mun því mæta meisturum síðustu þriggja ára, Snæfelli í úrslitum og er fyrsti leikur á mánudag í Stykkishólmi. 

Keflavík - Skallagrímur 80:64

TM höllin, Úrvalsdeild kvenna, 13. apríl 2017.

Gangur leiksins:: 5:6, 15:13, 17:20, 22:22, 28:29, 36:34, 41:38, 46:40, 50:42, 58:44, 60:44, 66:49, 66:54, 70:62, 70:64, 80:64.

Keflavík: Ariana Moorer 27/8 fráköst/5 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 20, Thelma Dís Ágústsdóttir 14/4 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 7/4 fráköst, Birna Valgerður Benónýsdóttir 5, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 3/11 fráköst/3 varin skot, Þóranna Kika Hodge-Carr 2/5 fráköst, Irena Sól Jónsdóttir 2.

Fráköst: 27 í vörn, 7 í sókn.

Skallagrímur: Ragnheiður Benónísdóttir 14/5 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 12/5 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 11/6 fráköst, Fanney Lind Thomas 9/7 fráköst, Tavelyn Tillman 9/5 fráköst/7 stoðsendingar, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 7/4 fráköst/5 stoðsendingar, Guðrún Ósk Ámundadóttir 2/6 fráköst.

Fráköst: 22 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Gardarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 500

Keflavík 80:64 Skallagrímur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert