Keflavík vann háspennuleik í Hólminum

Ariana Moorer og Aaryn Ellenberg eigast við í leiknum í …
Ariana Moorer og Aaryn Ellenberg eigast við í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Eyþór Benediktsson

Keflavík er komið yfir í einvíginu við deildarmeistara Snæfells um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik, en Keflavík fór með 75:69-sigur af hólmi í fyrsta úrslitaleik liðanna í Stykkishólmi í kvöld.

Leikurinn var jafn og æsispennandi allan leikinn. Snæfell var með yfirhöndina eftir fyrsta leikhluta en dæmið snerist við í öðrum hluta og Keflavík var yfir í hálfleik, 37:34.

Jafnræðið hélt áfram eftir hlé þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna. Fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var Snæfell með tveggja stiga forskot, 56:54. Lokamínúturnar voru svo æsispennandi, Keflavík skoraði fimm stig í röð og Snæfell náði aldrei að jafna eftir það. Keflavík hélt svo út og uppskar að lokum sex stiga sigur, 75:69.

Thelma Dís Ágústsdóttir var virkilega öflug hjá Keflavík með 23 stig og 10 fráköst. Ariana Moorer náði þrefaldri tvennu með 20 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar.

Hjá Snæfelli var Aaryn Ellenberg í sérflokki, en hún skoraði 42 stig og tók 10 fráköst. Næst á eftir henni var Bryndís Guðmundsdóttir með 9 stig og 10 fráköst.

Keflavík er því 1:0-yfir í einvíginu, en annar leikur liðanna fer fram á fimmtudagskvöld, sumardaginn fyrsta, í Keflavík og hefst klukkan 19.15. Vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari.

Thelma Dís Ágústsdóttir var stigahæst hjá Keflavík gegn Snæfelli í …
Thelma Dís Ágústsdóttir var stigahæst hjá Keflavík gegn Snæfelli í kvöld með 23 stig. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
Snæfell 69:75 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert