Í ársbyrjun bjuggu 1.164 manns í Stykkishólmi. Engu að síður er það staðreynd að á síðustu þremur og hálfu ári hefur stolt bæjarins, kvennalið Snæfells í körfubolta, orðið Íslandsmeistari þrisvar sinnum. Sem sagt; einn Íslandsmeistaratitill á hverja 388 íbúa. Við það bætast svo þrír deildarmeistaratitlar á þessum árum frá 2014, bikarmeistaratitill árið 2016, auk fleiri „minni“ titla.
Snæfell á sér ekki langa sögu í úrvalsdeild kvenna, en hefur leikið þar frá haustinu 2008. Á síðustu átta leiktíðum hefur liðið alltaf komist í úrslitakeppni Íslandsmótsins og getur eitt liða státað af þeim árangri, fyrir utan svo auðvitað að hafa sankað að sér titlum á þessum tíma. Hvernig tókst þetta? Hvert er upphafið að þessu mikla gullskeiði Snæfells, hverjir léku lykilhlutverk í því, er því lokið og gæti viðlíka skeið runnið upp aftur í nánustu framtíð?
„Það gera sér allir grein fyrir því að svona árangur kemur í bylgjum og að í svona litlum bæ er ekki hægt að vinna titla ár eftir ár í langan tíma. Það verða kynslóðaskipti og árgangarnir eru misfjölmennir, svo það er ekkert öruggt í þessu, en á meðan við höldum ákveðnum kjarna getum við teflt fram vel samkeppnishæfu liði þó að við séum ekki í baráttu um Íslandsmeistaratitil á hverju ári,“ segir Berglind Gunnarsdóttir, sem verið hefur einn af máttarstólpunum í liði Snæfells frá því að það kom upp í efstu deild. Hún var einnig í liðinu sem vann 1. deildina tímabilið 2007-08, án þess að tapa leik, þegar kvennalið Snæfells var að byrja að njóta uppskerunnar af mikilli körfuboltahefð í Stykkishólmi.
Sjá ítarlega úttekt á kvennaliði Snæfells í körfuknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag