„Mér leið bæði vel og illa. Maður veit þeir eru góðir í þessu en við þurftum bara að halda haus. Við gerðum ekki vel og létum ýta okkur úr okkar leik,“ sagði Björn Kristjánsson, leikmaður KR, eftir 93:86-sigur á Tindastóli í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld, aðspurður hvernig honum leið undir lok leiksins er Tindastóll minnkaði muninn í þrjú stig undir lokin.
KR lék hins vegar vel í leiknum og er þetta líklegast besta frammistaða liðsins til þessa á leiktíðinni.
„Frammistaðan var mjög góð og við erum að verða betri með hverjum leiknum. Ég er ánægður og við höldum áfram. Þetta er búið að vera svona í nokkur ár, við erum aldrei taldir sterkastir í byrjun. Það eru enn þá meiri læti yfir öðrum liðum en við sýndum í dag að við erum enn þá meistarar.“
Björn var sérstaklega ánægður að vinna Tindastól, sem fór illa með KR í Meistarakeppni KKÍ í byrjun leiktíðar. Hann var svo ánægður að hafa betur gegn Brynjari Þór Björnssyni, fyrrverandi KR-ingi.
„Það var geggjað, við þurftum að hefna fyrir meistara meistaranna þegar þeir rassskelltu okkur, það var gott að vinna Brilla í toppslag,“ sagði Björn Kristjánsson.