Ég var brjálaður

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga, á hliðarlínunni í kvöld.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég er alltaf svekktur þegar að ég tapa og það var hundfúlt að tapa þessum leik,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir 80:76-tap liðsins gegn KR í 13. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld.

„Mér fannst við vera í topp málum undir restina en það vantaði smá klókindi hjá okkur. Við gerðum of mörg mistök á síðustu mínútum leiksins og við köstum leiknum frá okkur. Við gerum of mikið af mistökum á lokamínútunum, bæði í síðasta leik og í þessum, og það er eitthvað sem við verðum að laga. Að sama skapi spiluðum við mjög vel allan leikinn og það er stígandi í þessu hjá okkur en við verðum að klára leikina okkar betur. Við skoruðum nóg til þess að vinna leikinn en það vantaði aðeins upp á varnarleiknum.“

Munurinn á liðunum var eitt stig þegar tæpar 13 sekúndur voru til leiksloka. KR fékk tvö vítaskot en Keflvíkingum mistókst að taka sóknarfrákast eftir seinna vítaskotið, annan leikinn í röð á lokamínútunum, og þar fór leikurinn.

„Ég var brjálaður þegar ég sá þetta gerast og ég var búinn að kalla á strákana að stíga vel út en þetta var langt frákast og stundum er það þannig. Þeir sem voru fyrir utan hefðu líka þurft að stíga út en svona hlutir gerast í körfubolta og við þurfum að koma tilbaka núna,“ sagði Sverrir Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka