Íþrótta- og æskulýðsmál fengu 500 milljónir króna í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar fyrr í þessum mánuði. Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, er allt annað en sáttur við upphæðina, en hann lýsti yfir vonbrigðum sínum í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun.
„Þetta er ekki neitt og þetta sýnir enn og aftur að ríkisvaldið og þeir sem fara fyrir fjármunum ríkisins hafa ekki áhuga á og vita ekki hvað íþróttahreyfingin er að gera,“ sagði Hannes.
Hann vonast til að íþróttafélög landsins fái upphæðina, vegna þeirra erfiðleika sem þau ganga nú í gegnum.
„Þessar um það bil 400-450 milljónir sem eru að koma núna vona ég að félögin okkar fái. Þau hafa orðið fyrir miklum skaða. Þetta er hins vegar ekki neitt miðað við það sem þau þurfa að fá. Það má orða þetta þannig að þetta sé bjarnargreiði. Þetta sýnir því miður að skilningurinn til íþróttahreyfingarinnar er ekki mikill,“ sagði Hannes ósáttur, áður en hann hélt áfram.
„Þetta er stærsta sjálfboðaliðastarf landsins og við höfum séð það vel hversu miklu íþróttir skipta í daglegu lífi, bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf. Þetta er afskaplega svekkjandi. Við sjáum hvað er að gerast í Noregi, þar fóru 600 milljónir norskar í íþróttahreyfinguna,“ sagði Hannes og benti svo á að tekjumissirinn hjá körfuboltaliðunum landsins sé gríðarlegur, þar sem engin úrslitakeppni verður leikin í ár. „Því miður er enginn skilningur fyrir þessu.“