Benedikt Guðmundsson og lærikonur hans í íslenska kvennalandsliðinu í körfuknattleik héldu til Grikklands í gær en liðið mætir Slóveníu og Búlgaríu í undankeppni EM á Krít, dagana 12. og 14. nóvember næstkomandi.
Ferðalagið gekk ekki áfallalaust fyrir sig en ferðataska þjálfarans varð eftir í London og stefnir allt í að taskan muni ekki skila sér fyrr en 13. nóvember.
„Ég er ekki í besta skapinu akkúrat núna,“ sagði þjálfarinn í samtali við mbl.is í gær.
„Ég var að fá fréttir af því að taskan mín mun ekki skila sér til mín fyrr en í kringum 13. nóvember en við reynum að gera gott úr þessu,“ bætti þjálfarinn við.
Ásamt landsliðsþjálfaranum þurfa þau Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, og Guðbjörg Norðfjörð, varaformaður sambandsins, einnig að bíða eftir töskunum sínum til 13. nóvember.
Þá er sjúkraþjálfari liðsins einnig töskulaus, sem og Guðbjörg Sverrisdóttir, leikmaður liðsins og Vals í úrvalsdeild kvenna.