Grindavík kjöldró Keflavík og flaug í úrslit

Góð stemning meðal Grindvíkinga í stúkunni í Smáranum í kvöld.
Góð stemning meðal Grindvíkinga í stúkunni í Smáranum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindavík tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik, með því að leggja Keflavík gífurlega örugglega að velli, 112:63, í oddaleik í undanúrslitum í Smáranum í Kópavogi.

Grindavík vann einvígið þar með 3:2 og mætir annað hvort Val eða Njarðvík í úrslitaeinvíginu, en þau eigast þegar þetta er ritað við í oddaleik á Hlíðarenda.

Í byrjun leiks áttu bæði lið í stökustu vandræðum með að skora, líkast til smávegis skrekkur í upphafi þetta mikilvægs leiks, þó vissulega hafi bæði lið spilað fyrirtaks vörn.

Staðan var 7:5, Grindavík í vil, eftir rúmlega fjögurra mínútna leik og skoraði hvorugt liðið í um tvær mínútur eftir á.

Allt í járnum í fyrri hálfleik

Keflavík náði að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 8:7 og fylgdi því eftir með því að setja niður tvær þriggja stiga körfur í röð. Staðan því skyndilega orðin 8:13.

Keflvíkingar hertu enn frekar tökin undir lok fyrsta leikhluta og voru komnir sjö stigum yfir, 10:17, þegar hann var úti.

Megnið af öðrum leikhluta var mikið jafnræði með liðunum þar sem Keflavík hélt fjögurra til sex stiga forskoti lengst af.

Undir lok leikhlutans bitu Grindvíkingar hins vegar frá sér, færðust sífellt nær og voru með eins stigs forskot, 41:40, þegar flautað var til hálfleiks eftir æsilega lokamínútu þar sem Kristófer Breki Gylfason skoraði þriggja stiga flautukörfu.

Lygilegur þriðji leikhluti

Grindavík hóf síðari hálfleikinn á hreint ótrúlegu áhlaupi þar sem liðið skoraði 24 stig gegn aðeins þremur stigum Keflavíkur. Munurinn orðinn 22 stig, 65:43, þegar þriðji leikhluti var tæplega hálfnaður.

Enn jókst á ófarir Keflavíkur þar sem Grindavík lék á als oddi og engu líkara en hvert einasta skot Grindvíkinga færi ofan í. Mestur varð munurinn 33 stig, 78:45, og staðan að loknum þriðja leikhluta  81:49.

Grindavík skoraði 40 stig gegn níu stigum Keflvíkinga í þriðja leikhlutanum, sem eru hreint lygilegar tölur.

Jókst enn á ófarir Keflvíkinga

Ekki batnaði það hjá Keflvíkingum í fjórða og síðasta leikhluta þar sem Grindavík jók einungis forskotið.

Grindvíkingar komust 49 stigum yfir, 105:56, þegar um þrjár og hálf mínúta var eftir.

Varamenn liðanna áttu í töluverðum erfiðleikum með að skora eftir það en munurinn varð mestur 54 stig, í stöðunni 112:58.

Niðurstaðan að lokum magnaður 49 stiga sigur Grindavíkur. Alls skoraði Grindavík 71 stig í síðari hálfleik gegn 23 stigum Keflavíkur.

Dedrick Basile var stigahæstur í leiknum með 25 stig og átta stoðsendingar fyrir Grindavík.

DeAndre Kane bætti við 17 stigum og Daniel Mortensen skoraði 16 stig og tók 12 fráköst.

Danero Thomas og Sigurður Pétursson voru stigahæstir Keflvíkinga með 11 stig hvor.

Grindavík 112:63 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka