Brown bjargaði Boston

Jaylen Brown bregst við mikilvægri þriggja stiga körfu sinni í …
Jaylen Brown bregst við mikilvægri þriggja stiga körfu sinni í lok venjulegs leiktíma AFP/MADDIE MEYER

Boston Celtics sigruðu Indiana Pacers í fyrsta leik undanúrslita NBA deildarinnar í körfubolta í nótt eftir framlengdan leik, 133:128. Jaylen Brown bjargaði heimamönnum í Boston með þriggja stiga körfu á lokasekúndum venjulegs leiktíma.

Boston var fyrirfram talið sigurstranglegra liðið í viðureigninni og komst í 12:0 strax í upphafi leiks en Indiana komst aftur inn í leikinn og munaði mikið um sex þriggja stiga körfur frá leikstjórnandanum Tyrese Haliburton. Sjö leikmenn Pacers skoruðu fleiri en tíu stig í leiknum.

Tyrese Haliburton brýtur á Jayson Tatum í nótt
Tyrese Haliburton brýtur á Jayson Tatum í nótt AFP/MADDIE MEYER

Þegar örfáar sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og Indiana var þremur stigum yfir, 117:114, tók Jrue Holiday innkast undir körfu Pacers, Derrick White setti hindrun fyrir Jaylen Brown en Pascal Siakam náði að setja mikla pressu á skot Brown, það kom ekki að sök og Brown jafnaði leikinn og tryggði Celtics framlengingu.

Mikil spenna og fjölmörg einstaklinsmistök einkenndu framlenginguna en Boston reyndust sterkari á svellinu og sigldu fimm stiga sigri, 133:128, í hús og taka 1:0 forystu í einvíginu. Liðin mætast á nýjan leik aðfaranótt föstudags.

Jayson Tatum skoraði 36 stig fyrir heimamenn og tók tólf fráköst, Brown skoraði 26 og Holiday 28. Í annars jöfnu liðið Pacers var Haliburton með 25 stig, Siakam 24, tólf fráköst og sjö stoðsendingar og stóri maðurinn Myles Turner með 23 stig og tíu fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert