Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Valskvenna, var að vonum ánægð með 4:2-sigur á KR í gærkvöldi, sem nánast tryggði Val sigur í Landsbankadeild kvenna, en hún sagði klúður fyrir tveimur árum hafa dugað til að undirbúa sitt lið af hörku fyrir leikinn.
„Ég hef þjálfað liðið í fjögur ár. Við vorum meistarar í byrjun tímabils árið 2005 en það er mjög erfitt að verja titil og við klúðruðum því en ég held að sú reynsla hafi nýst okkur í dag. Við höfum æft af grimmd alla vikuna og þannig tekið áhættu með meiðsli og slíkt en við vildum fá blóð á tennurnar. Sem betur fer komst hópurinn í gegnum þessar æfingar og ég held að þessi stemning hafi skilað okkur í gegnum þennan leik. Svo höfum við þessi fjögur ár aldrei tapað fyrir KR á þeirra heimavelli og það kom ekki til greina í dag," sagði Elísabet eftir leikinn og að sínar áætlanir hefðu gengið upp.
"Við lögðum upp með að vinna miðjuna, því þaðan koma sendingar inn á framherja þeirra, og það heppnaðist algerlega. Við settum Vönju Stefanovic inn á miðjuna og hún, ásamt Málfríði Ernu Sigurðardóttur og Katrínu Jónsdóttur, átti virkilega góðan dag. Við reyndum að tvöfalda gæsluna á Hólmfríði Magnúsdóttur, það tókst ekki í byrjun en svo komumst við inn í leikinn með liðsheildinni. Það eru góðir leikmenn í öllum stöðum og við sýndum að við erum besta liðið í dag. Það lá ekkert meira á okkur en þeim í þessum leik."
Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.