Klaustur gekk stórslysalaust fyrir sig

Hjálmurinn bjargaði þessum ökumanni frá meiðslum er ekið var yfir …
Hjálmurinn bjargaði þessum ökumanni frá meiðslum er ekið var yfir höfuð hans í troðningnum við ræsingu mótsins. Aron Frank

Þónokkuð var um minniháttar slys á þolakstursmótinu á Kirkjubæjarklaustri um helgina en blessunarlega voru engin stórslys. Sjúkrabíll flutti nokkra ökumenn til aðhlynningar en búist er við því að allir muni þeir jafna sig á meiðslum sínum innan nokkurra vikna.

Einn ökumaður ökklabrotnaði, annar sleit liðbönd í ökkla, þriðji braut hönd og 3 brutu viðbein. Smærri meiðsl á borð við fingurbrot, tognanir og skrámur voru þónokkrar. Ef haft er í huga að heildarfjöldi keppenda í öllum flokkum er yfir 500 og samtals var torfæruhjóli ekið í keppninni í samtals 2500 klukkustundir þá þykja meiðslin ekki mörg. Ef þessi tölfræði væri heimfærð á knattspyrnumót væri líkast að knattspyrnumaður myndi spila 350 fótboltaleiki áður en til þess kæmi að hann væri borinn slasaður af velli.Öflug sjúkragæsla var á keppninni. Sjúkrabíll var til taks og Björgunarsveitin á Kirkjubæjarklaustri sá um gæslu. Þyrla Landhelgisgæslunnar sveimaði nokkra hringi yfir svæðið á tíma, þó ekki vegna útkalls heldur vegna einskærs torfæruhjólaáhuga áhafnarmeðlima sem áttu leið um svæðið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert