Steinþór Guðbjartsson skoðaði verkið í Winnipeg og gluggaði í ótrúlega sögu liðsins sem var skipað leikmönnum af annarri kynslóð Íslendinga í Vesturheimi og þurfti að líða fyrir upprunann.">
Málverk af Ólympíu- og heimsmeisturum Fálkanna frá Winnipeg í Kanada í íshokkíi verður afhjúpað á sýningu í "Íslandshúsinu" í Salt Lake City í Bandaríkjunum í tengslum við Vetrarólympíuleikana, sem verða settir í borginni 8. febrúar nk. Steinþór Guðbjartsson skoðaði verkið í Winnipeg og gluggaði í ótrúlega sögu liðsins sem var skipað leikmönnum af annarri kynslóð Íslendinga í Vesturheimi og þurfti að líða fyrir upprunann.
Kanadískir íshokkímenn af íslenskum ættum þurftu að berjast fyrir tilverurétti sínum í Winnipeg í Kanada á árum áður, en þegar lið þeirra, Fálkarnir, varð Manitobameistari 1920 með fyrirliðann og miðherjann Frank Fredrickson í broddi fylkingar, hlutu þeir uppreisn æru. Skömmu síðar urðu þeir Kanadameistarar áhugamanna og tryggðu sér þar með réttinn til að keppa á Ólympíuleikunum í Antwerpen í Belgíu, þar sem íshokkí var keppnisgrein í fyrsta sinn á Ólympíuleikum. Kanadíska þjóðin gekk út frá því sem vísu að liðið yrði Ólympíumeistari og fögur lýsingarorð vantaði ekki. Mennirnir sem höfðu hreinsað ísinn á gamla íshokkívellinum í Winnipeg til að fá þar fría æfingu voru nánast í guðatölu.Keppnin á Ólympíuleikunum í Antwerpen var jafnframt heimsmeistarakeppni. Kanada vann Tékkóslóvakíu 15-0 í útsláttarkeppni, Bandaríkin 2-0 í undanúrslitum og Svíþjóð 12-1 í úrslitaleik. Bandaríkin urðu í öðru sæti eftir sigur á Svíþjóð og Tékkóslóvakíu en Tékkóslóvakía vann Svíþjóð í keppni um bronsið. Auk þess voru Belgía, Frakkland og England með í keppninni eða allar helstu íshokkíþjóðir heims að undanskildum Sovétríkjunum og Þýskalandi.
Þegar sigur Fálkanna í nafni Kanada var í höfn í Antwerpen sameinaðist kanadíska þjóðin um fyrstu Ólympíumeistarana í íshokkí.
Í ritstjórnargrein The Winnipeg Tribune kom m.a. fram að frami Fálkanna væri aðdáunarverður. Liðið hefði þurft að beita kjafti og klóm til að fá inngöngu í úrvalsdeild í Manitoba en væri nú fræknasta lið áhugamanna í heiminum.
Vestur-íslenska blaðið Heimskringla sagði m.a. á forsíðu 23. apríl 1920 að fregnin um árangurinn á Ólympíuleikunum ætti að fylla hjörtu allra Íslendinga með gleði og stolti, "vegna þess að það eru drengirnir þeirra, sem fræknastir hafa reynst og þannig svarið sig í kyn forfeðranna á söguöldinni. En hin Canadiska þjóð í heild sinni má vera upp með sér af flokknum, sem hún sendi yfir hafið...Fálkar! Vér þökkum yður í nafni tveggja þjóða hina hraustu framgöngu og heimsfrægðina."
Í Lögbergi 29. apríl 1920 kom fram að menn hefðu verið sannfærðir um að "þessir Íslendingar hefðu til að bera hreysti, listfengi, hugrekki, staðfestu og óbilandi viljaþrek til þess að sigra í kappleiknum, landi sínu, þjóð sinni og sjálfum sér til sóma." Fréttin um sigurinn hefði farið eins og logi yfir akur frá hafi til hafs í Kanada og löggjafar þjóðarinnar í þingsal ríkisins í Ottawa hefðu gleymt rétt í svip hvar þeir væru þegar þingmaður frá Winnipeg hefði fært þeim fréttirnar. Þeir "spruttu á fætur, veifuðu klútum eða hverju helzt öðru, sem handhægt var, og hrópuðu þrefalt húrra fyrir Fálkunum."
Ron Lemieux, íþróttamálaráðherra Manitoba, tekur í sama streng, en fyrir skömmu sæmdi hann dætur þriggja leikmanna Fálkanna Íþróttaheiðursnafnbót Manitoba, Sport Manitoba's Order of Exellence, vegna framgöngu feðranna. Hann segir að á sínum tíma hafi liðið verið misrétti beitt vegna uppruna leikmannanna og ákvörðun Íshokkísambandsins varðandi Toronto Granites á leikunum í Salt Lake City sé sem salt í sárin.
Dr. John Fredrickson, sonur Franks, fyrirliða Fálkanna, segir augljóst að Íshokkísambandið hafi verið að reyna að endurrita söguna með því að segja að íshokkí hafi verið sýningargrein á sumarleikum 1920 og Granites hafi orðið Ólympíumeistari á fyrstu Vetrarleikunum, en staðreyndin sé að Fálkaranir hafi verið fyrstu Ólympíumeistararnir í íshokkí og því verði ekki breytt.
Brian Johannesson, sonur varnarmannsins Konnie Johannesson, ákvað fyrir skömmu að gefa keppnistreyju föður síns og aðra hluti í íshokkífrægðarsetrið, The Hockey Hall of Fame, í Toronto. Þangað komi a.m.k. 100.000 manns á ári, sem hafi aldrei heyrt um Fálkana, en núkomist þeir ekki hjá því.
Félagið var nánast gjaldþrota eftir tímabilið 1911 til 1912, hópurinn tvístraðist og fylla þurfti í skörðin með yngri mönnum.
Frank Fredrickson byrjaði snemma að fylgjast með eldri leikmönnum, reyndi að líkja eftir þeim heima og sýndi fljótlega að hann var fæddur sigurvegari. Fred Thordarson, einn af stofnendum Fálkanna og stjórnarmaður, segir í grein sem dóttir hans, Shirley Thordarson McCreedy undirbjó til prentunar í The Icelandic Canadian 1996, að faðir Franks hafi útbúið svell í bakgarði heimilis þeirra við Dominion Street þar sem Frank og félagar hans í nágrenninu hafi æft sig. Það hafi verið sterkasta undirstaðan í þjálfun leikmannsins, sem átti eftir að slá í gegn í hópi áhugamanna og síðar atvinnumanna. Þetta minnir óneitanlega á sögu Wayne Gretzky, ókrýnds konungs íþróttarinnar, sem nú er framkvæmdastjóri Ólympíuliðs Kanada, en glæstur ferill hans hófst í bakgarðinum heima í Ontario.
Frank og Konnie Johannesson bættust í hóp Fálkanna 1912 og ári síðar komu bræðurnir Harvey og Bobby Benson, en 1914 varð Wally Byron markvörður Fálkanna. Það tímabil var Frank Fredrickson markakóngur liðsins, sem varð deildameistari. Vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar ákvað Íshokkísamband Manitoba að keppt yrði í tveimur riðlum í sex liða deild í fylkinu tímabilið 1915 til 1916 enda ljóst að margir leikmenn yrðu fjarverandi vegna stríðsins í Evrópu. Frank Fredrickson varð markakóngur deildarinnar en Fálkarnir urðu í öðru sæti.
Þegar 196. herdeild háskóla í Vestur-Kanada var stofnuð gekk Frank Frederickson í hana, en skömmu síðar flutti hann sig yfir í 223. herdeildina, sem var skipuð Kanadamönnum af skandinavískum uppruna, þar á meðal liðsmönnum Fálkanna. Herdeildin æfði í Portage la Praire og fyrrverandi leikmenn Fálkanna náðu að vera með hokkíæfingar samfara heræfingunum. Tímabilið 1916 til 1917 voru aðeins þrjú lið í íshokkídeildinni í Manitoba og þar á meðal lið 223. herdeildarinnar, en leikirnir fóru fram í Winnipeg, um 80 km frá Portage la Praire. Herdeildin varð í 2. sæti og enn var Frank Fredrickson markakóngur deildarinnar, en skömmu eftir að keppni lauk sigldi herdeildin til Englands. Þaðan fóru félagarnir Frank Fredricson og Konnie Johannesson til Kaíró til að starfa við flugskóla en hugurinn var að hluta til heima í Manitoba. "Ég vildi svo sannarlega vera í Winnipeg vegna hokkísins en næstbesti kosturinn er að vera í flughernum," skrifaði Frank Fredrickson í bréfi heim.
Félagsandinn var í hávegum hafður, einn fyrir alla og allir fyrir einn.
En einn hængur var á. Félagið sótti um aðgang að Winnipegdeildinni, en umsókninni var stöðugt hafnað þar sem forsvarsmenn deildarinnar töldu liðið ekki nógu gott til að vera í 1. deild. Málið vakti mikla athygli í fjölmiðlum og svo fór að fyrir tímabilið 1919 til 1920 var mynduð önnur 1. deild með Fálkunum, Selkirk og Brandon.
Fálkarnir vissu hvað þeir gátu en þeir voru jarðbundnir og mikluðust ekki af afrekum sínum. Þrátt fyrir örugga sigra töluðu þeir ekki um meistaratitil, en Fred Thordarson segir í fyrrnefndri grein að úrslitaleikurinn við Selkirk standi öðrum leikjum framar. Selkirk komst í 5-1, en Fálkarnir náðu að jafna og unnu í framlengingu.
Fálkarnir mættu The Winnipegs í keppni um Manitobatitilinn og unnu örugglega, 5-0 og 10-1. Í undanúrslitum um meistaratitilinn í Kanada unnu Fálkarnir Fort William frá Thunder Bay 7-2 og 9-1. Fálkarnir fóru því næst til Toronto og mættu liði Toronto-háskóla í keppni um kanadíska meistaratitilinn, Allan-bikarinn og farseðilinn á Ólympíuleikana. Fyrri leikurinn vannst auðveldlega 8-3 en úrslitin í þeim seinni urðu 3-2 fyrir Fálkana. "Þau stórtíðindi gerðust í íþróttaheiminum á mánudagskvöldið að Fálkarnir unnu konungdóm skautaíþróttarinnar í Canada, með því að sigra "Varsity" skautaflokkinn í Toronto," sagði Heimskringla, en borgarráðið í Winnipeg sendi liðinu 500 dollara að launum og Gray borgarstjóri sendi hópnum heillaóskaskeyti í nafni borgarbúa. "Toronto-blöðin hæla íslenzku skautaköppunum mjög mikið og segja að aldrei hafi annar slíkur flokkur til Toronto komið, og aðrir eins snillingar og Frank Frederickson og Magnús Goodman séu vandfundnir. Allir gátu Falcons sér góðan orðstír - hver einn og einasti; allir voru kappar og hreystimenn."
Mótherjarnir fylgdust með Fálkunum á æfingum og báðu leikmennina um að kenna sér, sem og þeir gerðu þó tíminn væri naumur. J.W. Chave segir í grein í Winnipeg Free Press 1964 að Konnie Johanneson hafi látið draum Svía um að fagna marki verða að veruleika þegar hann stýrði pökknum með öðrum skautanum í eigið mark. Í grein í sögutímaritinu The Beaver 1999 er vitnað í orð Frank Fredrickson og haft eftir honum að Svíum hafi verið gefið markið. "Svíarnir hreinlega trylltust. Þeir kölluðu og öskruðu og tókust í hendur og tóku í hendurnar á okkur. Þetta var frábært."
Sagt er að Fálkarnir hafi selt Svíum skautapar, sem þeir sögðu að væri með innbyggðri vél, fyrir 100 dollara. Audrey Fridfinnson, frænka Chris Fridfinnsons og dóttir gjaldkerans Bill Fridfinnsons, segir í viðtali við David Square að hún hafi ekki fengið söguna staðfesta en trúi að hún sé sönn. "Chris frændi talaði oft um þetta," segir hún. "Þetta voru ungir fátækir menn og svona upphæð hefur örugglega komið sér vel."
Gulldrengjunum var fagnað sem þjóðhöfðingjum við komuna til Montreal og Toronto. 22. maí var gefið frí hálfan daginn í Winnipeg svo heimamenn gætu hyllt hetjurnar þegar þær óku sigurhring í opnum bílum í miðbænum. Það fór ekki fram hjá neinum hverjir áttu bæinn og nöfn þeirra voru á vörum allra bæjarbúa en besti maðurinn var fjarri góðu gamni. Frank Fredrikson fór til Íslands eftir leikana vegna flugmála og kom ekki heim til sín fyrr en síðar. Hann missti því af sigurhringnum og heiðursveislum, en hélt eins og samherjarnir því sem var mikilvægast, fyrsta Ólympíumeistaratitlinum í íshokkí.
Leikmennirnir létu frægðina ekki á sig fá. "Þetta voru venjulegir ungir menn sem þótti gaman að spila íshokkí og voru tilbúnir að leggja allt á sig fyrir þjóð sína, hvort sem það var í stríði eða á Ólympíuleikum," segir Shirley Thordarson McCreedy, sem er áttræð og þekkti alla leikmennina, var skyld sumum þeirra og var nágranni þeirra. "Þeir litu ekki á sig sem hetjur heldur voru þeir jarðbundnir sigurvegarar." Beverly Doyle, dóttir Wally Byrons, tekur í sama streng. "Faðir minn var hreykinn af árangrinum en hann talaði ekki mikið um hann. Hann hafði dæmigert íslenskt lunderni - sjálfshól var drambi næst."
Shirley Thordarson McCreedy segir að lífið í Winnipeg hafi verið erfitt í byrjun nýliðinnar aldar og fólk af íslenskum ættum hafi t.d. breytt nöfnum sínum til að skera sig ekki úr. Íshokkíleikmennirnir hafi þurft að glíma við ákveðið mótlæti en það hafi eflt þá og styrkt. "Með tilliti til umræðunnar nú er athyglisvert að Toronto Granites tapaði fyrir liði Toronto-háskóla sem síðan tapaði fyrir Fálkunum í keppni um Allan-bikarinn og þátttökurétt á Ólympíuleikunum."
Takmarkið var að safna 15.000 dollurum fyrir Vetrarólympíuleikana. Um nýliðna helgi höfðu nefndinni borist um 10.000 dollarar og dr. Irvin Hjálmar Olafson, upphafsmaður nefndarinnar og einn helsti maðurinn á bak við átakið, segir að markmiðinu verði náð. Dan Johnson bætir við að átakið haldi áfram um ókomna tíð því stöðugt verði að vekja athygli á Fálkunum, framgangi þeirra og mikilvægi. "Auk þess viljum við undirstrika að ekki er hægt að breyta sögunni," segir hann.
"Það er mikilvægt að halda merki Fálkanna á lofti og Vetrarólympíuleikarnir í Salt Lake City eru kjörinn vettvangur til að vekja athygli á þeim," segir Daniel Johnson um söfnunina og sýninguna um Fálkana. Í því sambandi bendir hann á að fyrstu Íslendingarnir, sem fóru til Norður-Ameríku, hafi sest að í Utah, búsetan og Ólympíuleikarnir tengi Salt Lake og Winnipeg saman og í þriðja lagi sé ástæða til að minnast þess að 82 ár séu frá því Fálkarnir urðu Ólympíumeistarar fyrstir liða. "Þetta er kærkomið tækifæri til að halda upp á, styðja og styrkja íslenska menningararfleifð í Norður-Ameríku og á þessum tímamótum gerum við það best með því að vekja athygli á átakinu "Fálkarnir um alla framtíð"."
steg@mbl.is