Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra var viðstödd
þegar íslenski hópurinn var boðinn velkomin í Ólympíuþorpið í Peking í dag. Þorgerður mun dvelja í Peking næstu daga þar sem hún mun fylgjast með íslensku keppendunum.
„Það var viðeigandi að fara strax í Ólympíuþorpið og hitta þar okkar fólk. Það var gaman að sjá hve létt var yfir hópnum en eflaust er taugaspennan farin að gera vart við sig en ég held að allir séu spenntir að takast á við verkefnin sem bíða þeirra. Öll þjóðin slær í takt við íþróttafólkið hérna í Peking," sagði Þorgerður við fréttavef Morgunblaðsins í Ólympíuþorpinu í dag.
Hún bætti því við að margir hafi spurt hana á undanförnum misserum um afrek íslenskra íþróttamanna og kvenna. „Það eru flestir undrandi á þeim góða árangri sem lítil þjóð á borð við Ísland hefur náð í íþróttum. Það eru ýmsar skýringar á okkar árangri. Við erum með vel skipulagt íþróttastarf og á síðustu árum finnst mér að agi og fagmennska hafi einkennt okkar afreksíþróttafólk.
Það eru einnig gerðar meiri kröfur til þjálfara og aðstaðan er alltaf að verða betri og þetta mun allt saman skila sér til lengri tíma litið."
Þorgerður er hóflega bjartsýn á árangur Íslands á leikunum. „Ég hef lært af fyrri stórmótum að væntingar mínar eru oft of miklar. Ég bíð spennt eftir því að sjá Örn Arnarson í baksundinu á sunnudaginn og Rögnu Ingólfsdóttur í badmintoninu á laugardag. Ég tel að handknattleikslandsliðið geti náð góðum árangri þrátt fyrir að liðið sé í erfiðum riðli. Það er allt erfitt á Ólympíuleikunum en ég nokkuð bjartsýn fyrir hönd íslenska landsliðsins," sagði Þorgerður en hún verður viðstödd fyrstu tvo leiki íslenska handknattleiksliðsins gegn Rússum og Þjóðverjum.
Þorgerður mun ekkert draga af sér í stuðningnum á meðan hún verður áhorfendapöllunum á íþróttaviðburðunum í Peking. „Ég er bara venjulegur íslenskur stuðningsmaður þegar ég er á pöllunum að styðja við okkar íþróttafólk. Ég hef fengið glósur frá ýmsum að ég hagi mér ekki í samræmi við það að vera ráðherra. Gott og vel en ég á bara erfitt með að breyta mér þegar kemur að íþróttum annarsvegar. Ég hef misst röddina oftar en tvisvar á kappleikjum en ég held samt sem áður að ég hafi róast aðeins á allra síðustu árum," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.