Sundkonan Erla Dögg Haraldsdóttir komst ekki áfram úr undanrásunum í 100 metra bringusundi í dag. Erla Dögg synti á tímanum 1.11,78 og var því rúmri sekúndu frá Íslandsmeti sínu sem er 1.10,66.
Erla Dögg endaði í 39. sæti af öllum keppendum en tíminn sem þurfti til að komast í undanúrslit var 1.08,37.
„Ég veit ekki hvað gerðist en ég missti kraftinn á síðustu 25 metrunum og það er ég ekki vön að gera. Ég er að sjálfsögðu ekki sátt við að vera rúmri sekúndu frá mínum besta tíma,“ sagði Erla Dögg við mbl.is rétt eftir að hún hafði lokið keppni. Hún var alls ekki sátt við niðurstöðuna og ætlar sér að gera betur í 200 metra fjórsundi sem fram fer í hádeginu á morgun.