Gay: Þarf heimsmet til að vinna

Bandaríski spretthlauparinn Tyson Gay býst við hörkukeppni í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Peking. Usain Bolt frá Jamaíku er núverandi heimsmethafi og Gay býst við að þurfa að bæta metið til að ná í gullverðlaunin.

„Þegar Usain Bolt hljóp á 9,72 sekúndum vissi ég að ég þyrfti að hlaupa á 9,6 til þess að vinna hann. Ég hef æft með það í huga og ég hef sett mér það markmið,“ sagði Gay á fréttamannafundi í dag.

Tyson Gay er reyndar sá sem hefur hlaupið 100 metrana hraðast af öllum en þá var vindur of mikill til að metið væri tekið gilt.

„Það er hægt að slá metið. Ég gerði það með vind í bakið en mér finnst eins og að ég geti gert það án vindsins,“ sagði Gay.

Keppni í undanriðlum 100 metra hlaupsins hefst á föstudaginn, en úrslitahlaupið sjálft er á laugardaginn.

Tyson Gay á æfingu í Peking í dag.
Tyson Gay á æfingu í Peking í dag. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert