Rússar náðu að leggja Egypta

Konstantin Igropulo skýtur að marki Egypta í leiknum í morgun …
Konstantin Igropulo skýtur að marki Egypta í leiknum í morgun en Hassan Yousry er til varnar. Reuters

Rússar unnu nauman sigur á Egyptum, 28:27, í fyrsta leik dagsins í B-riðli handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í Peking. Alexei Rastvortsev skoraði sigurmarkið í blálokin en Egyptar höfðu þá unnið upp fjögurra marka forskot Rússa á síðustu mínútunum.

Rastvortsev var atkvæðamestur Rússanna og skoraði 8 mörk en Eduard Koksharov kom næstur með 4. Hjá Egyptum var Ahmed El Ahmar með 10 mörk og Hussein Zaky skoraði 5.

Staðan í hálfleik var jöfn, 14:14, og var í járnum þar til Rússar breyttu stöðunni úr 20:20 í 24:20 og 25:21. Egyptar jöfnuðu, 26:26 og 27:27 áður en Rastvortsev varð bjargvættur Rússanna.

Rússar eru þá með 2 stig og Egyptar eitt eftir tvær umferðir. Danmörk mætir Suður-Kóreu klukkan 11 og Ísland og Þýskaland mætast klukkan 12.45 í viðureign einu liðanna í riðlinum sem hafa ekki tapað stigi.

Í A-riðlinum unnu Króatar yfirburðasigur á Brasilíumönnum í fyrsta leik dagsins, 33:14, eftir 18:9 í hálfleik. Mirza Dzomba skoraði 7 mörk fyrir Króata og Domagoj Duvnjak 5.

Frakkar unnu síðan Kínverja auðveldlega, 33:19, eftir 19:7 í hálfleik. Nikola Karabatic, Luc Abalo og Michael Guigou gerðu 5 mörk hver fyrir Frakka og Kexin Hao 5 mörk fyrir Kínverja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert