Bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps komst í nótt í hóp þeirra sem unnið hafa flest gullverðlaun á Ólympíuleikum, eða alls níu, þegar hann sigraði í 200 metra skriðsundi.
Phelps setti jafnframt heimsmet en hann syndi vegalengdina á 1:42,96 mínútu og bætti eigið heimsmet um 9/10 úr sekúndu. Park Tae-hwan frá Suður-Kóreu varð annar á 1:44,85 og Peter Vanderkaay þriðji á 1:45,14.
Afgerandi sigur Phelps varð til þess að bandarískur sjónvarpskynnir líkti honum við kylfinginn fræga, Tiger Woods, og sagði að Phelps væri „Tiger Woods í sundskýlu.“
Phelps hefur unnið þrenn gullverðlaun það sem af er þessum Ólympíuleikum, eða jafn mörg og greinarnar sem hann hefur keppt í, og þessu til viðbótar hefur hann sett þrjú heimsmet.´
Með sigrinum í nótt slóst hann í hóp með Mark Spitz, Carl Lewis, Paavo Nurmi og Larysa Latynina, sem hafa unnið níu Ólympíugull.
Phelps stefnir að því að vinna átta gull á þessum leikum, og slá þar með met Spitz, sem vann sjö gull á einum leikum.