Phelps vinnur sitt 10. og 11. Ólympíugull

Michael Phelps.
Michael Phelps. Brynjar Gauti

Bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps lætur sér ekki duga að setja nýtt viðmið, heldur munar ekki um að rústa því gamla. Hann vann í nótt sitt tíunda og ellefta Ólympíugull, og er á góðri leið með að slá met landa síns Mark Spitz, sem vann sjö gull á einum leikum árið 1972.

Enginn annar hefur unnið jafn mörg Ólympíugull frá upphafi, 11 talsins, og gullin í Peking eru nú orðin fimm talsins. Phelps á þrjár greinar eftir og er afar líklegur til að fara alla leið og vinna þær líka.

Hann bætti að auki tveim heimsmetum í safnið, en þau met hans eru nú orðin jafn mörg og sundgreinarnar sem hann hefur keppt í á leikunum í Peking. Phelps sigraði í 200 metra flugsundi á nýju heimsmeti, 1:52,03 mínútu en í undanrásunum hafði hann sett Ólympíumet með því að synda á 1:53,70.

Lazslo Cseh frá Ungverjalandi hreppti silfrið á 1:52,70 mínútu og virðist líklegastur allra til að ógna veldi Phelps á næstu árum. Matsuda Takeshi frá Japan varð þriðji á nýju Asíumeti, 1:52,97 mínúta.

Phelps var síðan í bandarísku boðsveitinni sem sigraði í 4x200 metra skriðsundi, og varð fyrsta boðsveitin til að synda á innan við sjö mínútum. Nýtt heimsmet hennar er 6:58,56 mínútur og bætti gamla metið um 4,68 sekúndur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert