Guðmundur: „Of mörg mistök í sóknarleiknum“

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. mbl.is/Brynjar Gauti

„Líklega hefði jafntefli dugað til þess að komast í 8-liða úrslit en svona eru íþróttirnar. Það var tvennt sem féllum á gegn Suður-Kóreu, of mörg mistök í sóknarleiknum og við vorum með lélega nýtingu í  þeim færum sem við fengum,“ sagði Guðmundur Guðmundsson þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik eftir 22:21 –tap gegn Suður-Kóreu á Ólympíuleikunum í Peking.

Ásgeir Örn Hallgrímsson tók síðasta skot leiksins þegar hann fór inn úr hægra horninu nokkrum sekúndum fyrir leikslok en boltinn hafnaði í þverslánni.

„Ég mun klappa honum á bakið og hughreysta hann þegar ég hitti hann á eftir. Þetta er gangur lífsins í íþróttunum og eflaust líður honum ekki vel. Stundum heppnast þetta og þá eru allir glaðir og stundum heppnast þetta ekki. Hann tók sína ákvörðun og ég hef ekkert út á hana að setja. Hann var einfaldlega óheppinn og þetta var spurning um nokkra millimetra. Svona er bara sportið, við erum alltaf að keppa um einhverja millimetra hér eða þar.“

Þjálfarinn hrósaði varnarleiknum og markvörslunni en Björgvin Gústavsson varði alls 22 skot og þar af eitt vítakast. „Varnarleikurinn var frábær og markvarslan einnig. Það á að duga að fá á sig 22 mörk en við vorum allan leikinn að klúðra úr opnum færum og hraðaupphlaupin voru ekki að ganga nógu vel. Róbert Gunnarsson fann sig ekki á línunni í sóknarleiknum og mér fannst of margir lykilleikmenn okkar eiga dapran leik. Það verður bara að segjast eins og er. Engu að síður fengum við tækifæri til að jafna undir lokin,“ sagði Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert