„Ég sagði við Snorra Stein eftir leikinn að ég hefði ekki leyft honum að taka þetta víti fyrir fjórum árum. Þá ætlaði ég að gera allt sjálfur og var í einhverjum pakka. Snorri er það góð vítaskytta að þegar hann klikkar á einu víti þá eru nánast engar líkur á því að hann klikki á því næsta,“ sagði Ólafur Stefánsson fyrirliði íslenska landsliðsins eftir 32:32-jafnteflið gegn Evrópumeistaraliði Dana í dag á ÓL í Peking.
Ólafur var ekki sáttur við marga af dönsku landsliðsmönnunum og taldi þá hrokafulla. „Við erum bara miklu betri en þetta lið. Mér fannst leiðinlegt hvað þeir eru hrokafullir þessir Danir. Þeir þykjast vera eitthvað fúlir og svona.“
Ólafur hefur sagt það áður að hann leggi upp hvern einasta leik sem leik í 8-liða úrslitum og var hann því sallarólegur yfir þeim áfanga að Íslendingar væru búnir að tryggja sér sæti á meðal 8 bestu liða á Ólympíuleikunum. „Við erum bara flottir, allir í frábæru formi og ef varnarleikurinn er þokkalegur þá erum við bara líklegir til að fara langt. Við þurfum að halda dampi og vera ofarlega í þessum riðli og jafnvel vinna hann,“ sagði Ólafur.