„Mér fannst smá hroki í Dönunum en þeir hafa kannski efni á því, þeir eru Evrópumeistarar, ekki við. Íslenska hjartað og brjálæðið kemur okkur alltaf í gegnum erfiðustu hjallana og þetta var einn af þeim leikjum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik eftir 32:32-jafntefli Íslands gegn Evrópumeistaraliði Dana á Ólympíuleikunum í Peking.
Útlitið var ekki bjart fyrir íslenska liðið þegar Bo Spelleberg kom Dönum í 31:29 og aðeins tvær mínútur voru eftir af leiknum. Staðan í hálfleik var 18:17 fyrir Dani en Íslendingar eru í næst efsta sæti b-riðilsins með 5 stig en Suður-Kórea er með 6 stig í því efsta.
Á næstu tveimur mínútum skoruðu Íslendingar þrjú mörk gegn einu, fyrst Ólafur Stefánsson fyrirliði, Alexander Petersson jafnaði metin þegar mínúta var eftir, 31:31, en Mikkel Hansen kom Dönum yfir þegar um 20 sekúndur voru eftir af leiknum. Danir misstu mann útaf þegar skammt var til leiksloka og Guðmundur Guðmundsson tók Hreiðar Guðmundsson markvörð útaf og bætti við einum sóknarmanni. Íslendingar létu boltann ganga út á hægri vænginn og það var Arnór Atlason sem braust í gegnum vörn Dana og fékk dæmt vítakast. Umdeildur dómur að mati Dana en Snorri Steinn Guðjónsson var „ískaldur“ á vítalínunni og skoraði af öryggi.
„Ég hefði ekki einu sinni leyft Óla (Ólafi Stefánssyni) að taka þetta vítið þótt hann hefði óskað eftir því. Kom ekki til greina,“ sagði Snorri en var markahæstur í liði Íslands þar sem hann skoraði 8 mörk og þar af 4 úr vítaköstum.
„Ísland, Danmörk er bara ávísun á jafntefli en þetta var ótrúlega sætt jafntefli,“ sagði Sverre Jakobsson varnarmaðurinn sterki en hann leyndi ekki gleði sinni í leikslok. „Mér fannst við eiga þetta skilið og það er mikill karakter í liðinu. Við erum búnir að leggja heimsmeistarana að velli og gerum jafntefli við Evrópumeistarana. Þetta er frábært en næsta verkefni er skammt undan og við getum fagnað þessu í nokkrar mínútur til viðbótar. Fyrsta markmiðinu er náð og núna setjum við okkur ný markmið eftir leikinn gegn Egyptalandi,“ sagði Sverre en hann var eins og margir leikmenn Íslands ósáttur við leikræna tilburði sóknarmanna Dana.
Markvarslan hjá íslenska liðinu var lítil sem engin í fyrri hálfleik en Hreiðar Guðmundsson kom inná um miðjan fyrri hálfleik en Björgvin Gústavsson náði ekki að verja nema eitt skot á þeim tíma. Hreiðar hrökk í gang í síðari hálfleik en hann varði alls 13 skot og þar af eitt vítakast. „Mér leið alveg hrikalega illa þegar ég sá að Snorri skoraði úr vítinu, þetta var frekar dapur – eða þannig,“ sagði Hreiðar en hann náði að einbeita sér betur að verkefninu í síðari hálfleik. „Ég ætlaði að gera allt of mikið þegar ég kom inn á í fyrri hálfleik. Ég var allt of hraður og náði ekki að einbeita mér nógu vel. Ég tala mikið við sjálfan mig og reyni að leiðrétta það sem ég geri vitlaust. Það tókst þegar ég náði að hægja á mér og ná þröngu sjónsviði á leikmennina sem voru með boltann. Þá ver maður nokkrar tuðrur,“ sagði Hreiðar Guðmundsson.