Snorri: „Sokkaboltinn kom sterkur inn í vítinu“

Ásgeir Örn Hallgrímsson var glaðbeittur í leikslok líkt og Snorri …
Ásgeir Örn Hallgrímsson var glaðbeittur í leikslok líkt og Snorri Steinn Guðjónsson sem er hér vinstra megin á myndinni. mbl.is/Brynjar Gauti

„Sokkaboltinn með Robba (Róberti Gunnarssyni) í gegnum tíðina á þessum landsliðsferðum kom sterkur inn í vítinu. Ég kenni öllum krökkum sem ég hitti í handboltaskólum sem ég hef farið í sokkabolta, og ég er ekkert að grínast að hann kom að gagni í þessu víti,“  sagði Snorri Steinn Guðjónsson við mbl.is rétt eftir að hann hafði tryggt Íslendingum 32:32-jafntefli gegn Evrópumeistaraliði Dana á Ólympíuleikunum í Peking.

Íslendingar eru þar með öruggir í 8-liða úrslit og Snorri skoraði af öryggi úr vítakasti þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum gegn einum sterkasta markverði heims, Casper Hvidt.

„Ég ákvað að skjóta bara strax á markið en hann hafði platað mig fyrr í leiknum þegar ég beið með að taka skotið. Ég vissi að hann myndi standa kyrr eins og hann er vanur að gera og eflaust átti hann von á því að ég myndi taka gabbhreyfingu áður en ég myndi skjóta á markið. Mér leið vel áður en ég skaut og ég hafði trú á því að ég myndi skora, ég hugsaði bara um þá sem mér þykir vænt um og síðan kýldi ég bara á það,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson.

Snorri og Róbert Gunnarsson línumaður hafa í gegnum tíðina leikið sér á hótelgöngum á landsliðsferðum þar sem að þeir spila einn gegn einum í vítakeppni og nota þeir sokka í stað bolta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert