Wilbek æfur í leikslok

Ulrik Wilbek.
Ulrik Wilbek.

Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, var æfur í lok leiks Dana og Íslendinga og sagði við danska fjölmiðla að sænsku dómararnir hefðu stolið sigrinum af Dönum. Hann kvartaði hástöfum við dómarana og eftirlitsdómarana.

Dæmt var vítakast á Dani þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum en Wilbek vildi meina, að dæma hefði átt ruðning á Arnór Atlason þegar hann braust í gegnum dönsku vörnina. 

„Þetta var hreinn þjófnaður. Þetta var stærsta sóknarbrot ársins en ekki vítakast. Við áttum góðan leik en sigurinn var tekinn af okkur í lokin," sagði Wilbek við danska útvarpið. Hann var einnig afar ósáttur við tvo brottrekstra, sem Danir fengu á sig á lokamínútum leiksins.

Á fréttavef TV2 segir, að þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Wilbek hafi næstum lent í áflogum. Eftir leikinn hafi Guðjón Valur ekki verið ánægður með lætin í danska þjálfaranum og sagt skyndilega: „Farðu til fj... Wilbek ef þú getur ekki horfst í augu við mig!"

Við þetta sauð hreinlega uppúr hjá Wilbek, sem var reiður fyrir. TV2 segir, að Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, hafi gengið á milli og komið í veg fyrir handalögmál.

Íslendingar fáránlega beittir

Dönsku leikmennirnir voru hins vegar flestir yfirvegaðri í ummælum sínum um leikinn.  Klavs Bruun Jørgensen sagði að þetta hefði verið besti leikur Dana á ólympíuleikunum til þessa. 

Bo Spellerberg, einn besti leikmaður Dana í leiknum, sagði leikmenn danska liðsins geta sjálfum sér um kennt hverngi fór. Þeir hefði misst einbeitinguna á endasprettinum og íslenska liðið hefði refsað grimmilega fyrir það. „Íslenska liðið refsar andstæðingi sínum grimmilega fyrir hver mistök og fyrir því urðum við á síðustu sekúndunum."

Lars Christiansen tók í sama streng: „Íslendingarnir eru fáránlega beittir. Þeir nýta sér hverja smugu sem þeir sjá. Við gerðum nokkur smávægileg mistök þar sem tímasetningar voru ekki alveg réttar. Þá náðu þeir boltanum og fóru í hraðaupphlaup."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka