„Við megum ekki gleyma því að Egyptar eru með gott sóknarlið en því verður ekki breytt að vörnin var ekki góð. Við tókum ekki fráköst, menn unnu ekki vel saman, og einn á móti einum náðum við oft ekki að klára dæmið,“ sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í leikslok eftir 32:32 jafnteflið gegn Egyptum á ÓL í Peking. Hann sagði að á síðustu æfingu liðsins fyrir leikinn gegn Egyptum hafi liðið farið yfir þetta leikkerfi gegn þessari vörn, með Snorra Stein í „gula vestinu“ sem aukamaður í sókninni.
„Það var ánægjulegt fyrir liðið að sjá að þetta gekk upp og við erum rosalega stoltir af því. Það er eiginlega lyginni líkast að við vorum að æfa þessa fléttu á síðustu æfingu okkar. Nákvæmlega svona, gegn þessari vörn. Og þetta gekk upp. Við erum búnir að spá mikið í slík atvik enda getur þetta skipt öllu máli þegar leikirnir eru svona jafnir.
Guðmundur segir að hann hafi ekki leitt hugann að því hverjir mótherjar Íslands verða í 8-liða úrslitunum. „Veistu það að ég hef bara ekkert spáð í það, við vitum það ekki fyrr en riðlakeppninni lýkur seint í kvöld. Það eru litlar líkur á því að við mætum Frökkum en mér finnst líklegast að við fáum Spánverja eða Króata. Það kemur bara í ljós og við erum klárir með verkferli þegar þetta verður klárt. Mér finnst það stórkostlegur árangur hjá okkur að komast í 8-liða úrslit í þessum riðli. Ég efast um að það hafi verið spilaður svona riðill á Ólympíuleikum áður. Úrslit úr nánast öllum leikjum ráðast á síðustu sekúndunum og ég man ekki eftir svona spennu áður,“ sagði Guðmundur.