Rússar unnu stórsigur á Suður Kóreu

Leikmenn Rússa fagna sigrinum á Suður Kóreu í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna.
Leikmenn Rússa fagna sigrinum á Suður Kóreu í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Reuters

Rússar lögðu Suður Kóreu með sjö marka mun, 29:22, í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna, en báðar þjóðir leika í riðli með Íslendingum.  Rússar hafa þar með komist upp í fjórða sæti riðilsins sem þýðir að Danir verða að ná stigi eða stigum gegn Þjóðverjum síðar í dag til þess að sitja ekki eftir með sárt ennið þegar kemur að átta liða úrslitum sem hefjast á miðvikudag.

Rússar voru með forystu í leiknum við Suður Kóreu frá upphafi til enda, m.a. höfðu þeir fimm marka forskot í hálfleik, 17:12.

Suður Kórea og Íslendingar hafa sex stig hvor þjóð, Þjóðverjar eru með fimm stig en eiga leik inni. Rússar eru einnig með fimm stig, Danir þrjú og eiga leik til góða við Þjóðverja. Egyptar reka lestina með 2 stig og eru á heimleið.

Geri Þjóðverjar og Danir jafntefli í leik sínum á eftir verða Íslendingar efstir í riðlinum og leika gegn liðinu í fjórða sæti í A-riðli. Hvaða lið það verður skýrist þegar keppni lýkur í þeim riðli. Vinni Þjóðverjar Dani hafna Íslendingar í þriðja sæti riðilsins og leika við þjóðina sem verður í öðru sæti A-riðils. Vinni Danir hins vegar verður íslenska liðið í öðru sæti riðilsins og mætir liðinu sem verður í þriðja sæti A-riðils. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert