Þýska pressan fer ekki fögrum orðum um karlalandslið Þýskalands í handknattleik eftir að ljóst var að liðið kæmist ekki í 8-liða úrslit á Ólympíuleikunum í Peking. Talað er um að leikmenn hafi brugðist og þungt er yfir mönnum. Ekki tókst kvennaliði Þýskalands heldur að komast upp úr sínum riðli og eru Þjóðverjar því mjög vonsviknir með árangur sinna liða.
„Þetta er einfaldlega skandall að við skulum sitja eftir í riðlinum,“ sagði Florian Kehrman leikmaður þýska karlaliðsins um frammistöðuna í Peking. „Það er okkur sjálfum að kenna að við komumst ekki áfram og engum öðrum. Okkur tókst ekki að vinna nógu vel úr hlutunum, þess vegna fór sem fór,“ sagði Michael Krauss sem átti þrátt fyrir allt gott mót með Þýskalandi.
Fyrir fjórum árum tapaði Þýskaland í úrslitum Ólympíuleikanna og því er mikið áfall að ekki var unnt að gera betur í þetta skiptið. thorkell@mbl.is