„Þetta var stórkostlegt og fyrri hálfleikurinn verður lengi í minnum hafður. Það var viðbúið að síðari hálfleikurinn yrði erfiður en með stórkostlegu átaki tókst okkur að landa sigri. Við erum komnir þetta langt og núna sjáum við bara hvað gerist í framhaldinu og hverjum við mætum,“ sagði Guðmundur Guðmundsson þjálfari íslenska landsliðsins eftir 32:30-sigur liðsins gegn Póllandi í Peking.
„Við vorum mjög skynsamir og þolinmóðir í sóknarleiknum, vörnin var frábær og markvarslan stórkostleg. Ég get ekki sagt neitt annað um leikinn. Við lentum í vandræðum um miðjan síðari hálfleik þegar við fengum tvær brottvísanir með stuttu millibili en það var alltaf viðbúið að Pólverjarnir myndu sækja hart að okkur,“ sagði Guðmundur.