Ísland í undanúrslit á ÓL

Guðmundur Guðmundsson fagnaði sigrinum gegn Pólverjum ógurlega ásamt liðsmönnum íslenska …
Guðmundur Guðmundsson fagnaði sigrinum gegn Pólverjum ógurlega ásamt liðsmönnum íslenska landsliðsins. mbl.is/Brynjar Gauti

Íslenska landsliðið í handknattleik er komið í undanúrslit í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Peking eftir frábæran tveggja marka sigur á Pólverjum, 32:30, í leik sem var að ljúka. Íslendingar mæta Spánverjum eða Suður Kóreu í undanúrslitum í leik klukkan 12.15 á föstudag.

Fyrri hálfleikurinn í dag var sá besti sem íslenska landsliðið hefur sýnt í þessari keppni. Framliggjandi vörnin var frábær og Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í markinu, varði tíu skot. Þá gekk sóknarleikurinn nær óaðfinnanlega. Staðan í hálfleik var, 19:14, fyrir Ísland.

Sóknarleikurinn gekk ekki eins vel í fyrri hluta síðari hálfleik og Pólverjar náðu að minnka muninn niður í eitt mark, en lánaðist aldrei að jafna metin. Seiglan og ákveðinn sem íslenska landsliðið hefur sýnt í leikjum keppninnar kom vel í ljós á lokakaflanum og tvö frábær mörk Alexanders Peterssonar á endasprettinum gulltryggðu sigurinn. 

Mörk Íslands: Alexander Petersson 6, Snorri Steinn Guðjónsson 5/1, Guðjón Valur Sigurðsson 5, Logi Geirsson 4, Ólafur Stefánsson 4/1, Arnór Atlason 3, Róbert Gunnarsson 3, Ingimundur Ingimundarson 1, Sigfús Sigurðsson 1. 

Björgvin Páll Gústavsson fór hamförum í marki íslenska landsliðsins í leiknum og varði a.m.k. 20 skot, þar af eitt vítakast.

Ísland hefur einu sinni komist í undanúrslit í handknattleikskeppni Ólympíuleika. Það var 1992 í Barcelona. Þá hafnaði Ísland í fjórða sæti eftir að hafa tapað fyrir Frakklandi í leik um þriðja sætið. 

Alexander Petersson skorar gegn Pólverjum í leiknum í dag.
Alexander Petersson skorar gegn Pólverjum í leiknum í dag. mbl.is/Brynjar Gauti
Guðjón Valur Sigurðsson í dauðafæri og skorar gegn Pólverjum.
Guðjón Valur Sigurðsson í dauðafæri og skorar gegn Pólverjum. mbl.is/Brynjar Gauti
Logi Geirsson lætur vaða á pólska markið.
Logi Geirsson lætur vaða á pólska markið. mbl.is/Brynjar Gauti
Ísland ÓL 2008 32:30 Pólland opna loka
60. mín. Alexander Petersson (Ísland ÓL 2008) skoraði mark - stórkostlegt!!!! 50 sekúndur eftir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka