Snorri: „Ég veit ekki hvað skal segja“

Ásgeir Örn var glaðbeittur í leikslok líkt og Snorri Steinn …
Ásgeir Örn var glaðbeittur í leikslok líkt og Snorri Steinn sem er hér vinstra megin á myndinni. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég veit ekki hvað skal segja eftir svona leik. Þetta er stórkostlegt og við fáum kannski að njóta sigursins eitthvað fram eftir degi,“  sagði Snorri Steinn Guðjónsson leikmaður íslenska landsliðsins eftir 32:30 sigur liðsins gegn Pólverjum í 8-liða úrslitum Ólympíuleikana í Peking. Snorri skoraði 5 mörk úr 11 skotum en flest mörkin sem Snorri skoraði var af línunni eftir frábærar sendingar frá félögum hans.

„Pólska liðið spilar vörnina frekar framarlega og mörg okkar leikkerfi snúast um að koma boltanum leikmenn sem fara inn á línu. Þetta gafst vel og maður lætur sig bara vaða í baráttuna gegn þessum stóru „köllum“. Ég er ekki stærsti leikmaðurinn á vellinum og þeir hafa kannski ekki miklar áhyggjur af mér þarna,“ sagði Snorri en hann ætlaði ekki að taka vítakast þegar skammt var eftir af leiknum sem fór úrskeiðis.

„Ég fékk högg á mig þegar vítið var dæmt og ég ætlaði ekki að taka það. Samt gerði ég það og það fór framhjá. Óli (Ólafur Stefánsson) tók bara næsta víti sem við fengum og hann er frábær vítaskytta. Við höfum yfirleitt skipt þessu á milli okkar þrátt fyrir að ég hafi tekið þau flest hérna í Peking,“ sagði Snorri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert