Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, eiginkona hans, komu í dag í í ólympíuþorpið í Peking og heilsuðu upp á íslenska íþróttafólkið.
„Ég heyrði það í samræðum mínum við kínversku forustumennina, sem hafa undirbúið ólympíuleikana, að þeim finnst árangur Íslands í handboltanum hér vera mikil skilaboð til hins mikla fjölda fámennra þjóða, sem eiga hér fulltrúa. Þessi skilaboð eru að litlar þjóðir geta náð langt," sagði Ólafur Ragnar m.a. þegar hann ávarpaði íþróttafólkið.
Íþrótta- og ólympíusamband Íslands bauð Ólafi Ragnari að koma á
leikana. Forsetinn er verndari sambandsins og mun taka þátt í ýmsum
atburðum á vegum sambandsins meðan á dvölinni í
Beijing stendur.
Hu Jintao, forseti Kína, hefur óskað eftir að
hitta Ólaf Ragnar að máli og verður fundur þeirra í fyrramálið.