Hverjir eru mótherjarnir?

Jon Belaustegui og Ruben Garabaya taka vel á Nikola Karabatic …
Jon Belaustegui og Ruben Garabaya taka vel á Nikola Karabatic leikmanni Frakka. Reuters

Ísland mætir Spáni í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Peking á morgun í handknattleik. Er rétt að drepa aðeins niður fætinum og skoða hverjir eru í liði andstæðinganna, Spánverja.

Markverðir:
Spánn hefur á að skipa tveimur gríðarlega góðum og reyndum markvörðum. Jose Javier Hombrados er 36 ára, samherji Ólafs Stefánssonar hjá Ciudad Real á Spáni en hefur áður leikið með liðum á borð við Portland San Antonio og Ademar Leon. Hann var í liði Spánverja sem varð heimsmeistari í Túnis árið 2005.
Hinn markvörður Spánar er hinn 38 ára gamli David Barrufet, leikmaður Barcelona. Hann var einnig í liði Spánar sem vann gullið á HM 2005. Í síðasta leik Spánar á Ólympíuleikunum var það Barrufet sem gjörsamlega lokaði markinu gegn Suður-Kóreu og átti hreint frábæran leik. Barrufet er leikjahæsti leikmaður Spánar fyrr og síðar.

Hornamenn:
Fyrsta val landsliðsþjálfarans, Juan Carlosar Pastors í hægra hornið er Albert Rocas. Sá er 26 ára gamall hægri hornamaður sem leikur með Barcelona og gekk í raðir liðsins frá Portland San Antonio fyrir síðasta tímabil. Hann er drjúgur í markaskorun og var einn lykilmanna þegar Spánn varð heimsmeistari fyrir þremur árum.
Þurfi að hvíla Rocas eða standi hann ekki undir væntingum hefur Pastor hinn 23 ára gamla Tomas Victor til taks sem spilar sömu stöðu og Rocas. Victor er einn fjölmargra leikmanna spænska landsliðsins sem er á mála hjá Barcelona.

Í vinstra horninu leikur iðulega Juan Garcia, 31 árs gamall leikmaður Barcelona. Sá átti afar gott mót á EM í Noregi nú í ár og hefur á síðustu árum verið að koma öflugur til leiks. Hann varð heimsmeistari 2005.
Hinn kosturinn í vinstra hornið er hinn 32 ára gamli David Davis, leikmaður Ciudad Real. Sá var einnig í liði Spánar sem landaði dollunni á HM í Túnis.

Línumenn:
Ruben Garabaya  ætti að vera fyrsti kosturinn á línunni hjá Spáni. Hann er einn af þeim sem voru í heimsmeistaraliðinu 2005. Garabaya leikur með Barcelona og er 30 ára gamall. Hann er mikið naut og feykilega erfiður viðureignar á línunni.
Carlos Prieto, 28 ára leikur einnig á línunni. Sá er leikmaður Valladolid og er rúmir tveir metrar á hæð og tröll að burðum.

Útileikmenn:
Spánverjar geta teflt fram tveimur virkilega góðum stórskyttum vinstra megin. Annar þeirra er Iker Romero sem leikur með Barcelona. Romero er 28 ára, sterk skytta sem meðal annars var í liði Spánar 2005 í Túnis.
Hin stórskyttan vinstra megin er Alberto Entrerrios samherji Ólafs Stefánssonar hjá Ciudad Real. Entrerrios er 32 ára og var í gull-liði Spánar á HM 2005.
Þá er þriðji kosturinn í vinstri skyttustöðuna, Demetrio Lozano, 33 ára leikmaður Barcelona, úr heimsmeistaraliðinu 2005 og vann brons með Spáni á Ólympíuleikunum 1996 og 2000.

Örvhentu skytturnar sem eru í hópi Spánar eru annars vegar Jon Belaustegui, 29 ára, sem leikur með CDAD Logbond.
Í sömu stöðu getur einnig leikið Cristian Malmagro sem er 23 ára gamall leikmaður Antonio Pamplona.

Þá er ótalinn leikstjórnandinn Raul Entrerrios, bróðir Albertos. Raul er 27 ára og leikur með Valladolid. Hann er einn af lykilmönnum í liðinu og er einn þeirra sem var í heimsmeistaraliði Spánar sem vann í Túnis 2005.

Þjálfari liðsins er svo Juan Carlos Pastor. Hann hefur þjálfað Spán frá árinu 2004 en hefur verið þjálfari Valladolid í heimalandinu frá árinu 1995 án hlés.

Skyttan Alberto Entrerrios í baráttu við pólska varnarmenn.
Skyttan Alberto Entrerrios í baráttu við pólska varnarmenn. Reuters
David Barrufet markvörður sér við franska hornamanninum Luc Abalou í …
David Barrufet markvörður sér við franska hornamanninum Luc Abalou í riðlakeppninni á Ólympíuleikunum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert