Það hefur gætt misskilnings einhverra sem halda að ef Íslandi takist að vinna gull í handboltanum á Ólympíuleikunum vinni liðið sér sjálfkrafa þátttökurétt á HM 2009 í Króatíu.
Þannig er málum þó ekki háttað. Þar sem Ísland beið lægri hlut fyrir Makedóníu í upphafi sumars um laust sæti á HM í umspili varð ljóst strax þá að Ísland yrði ekki með á HM í Króatíu. Þannig sama hvernig fer hjá Íslandi í Peking munu íslensku leikmennirnir fá kærkomna hvíld í janúar næst komandi þegar heimsmeistarakeppnin í handknattleik fer fram. Ísland hefur verið með á öllum stórmótum frá því á EM 2000 í Króatíu.
En það þýðir ekki að hugsa um einhver önnur stórmót, heldur best að einblína bara á að klára keppni á þessum Ólympíuleikum í Peking með stæl.