Óánægðir með hegðun Bolt

Usain Bolt fagnar sigrinum í 200 metra hlaupi í Peking.
Usain Bolt fagnar sigrinum í 200 metra hlaupi í Peking. Reuters

Alþjóða ólympíunefndin hefur gagnrýnt Usain Bolt, ólympíumeistara í 100 og 200 metra hlaupi karla, fyrir að sýna keppinautum sínum óvirðingu. Bolt, sem er 22 ára og er frá Jamaíka, hafði mikla yfirburði í hlaupunum og setti heimsmet í þeim báðum.

Eftir sigurinn í 200 metra hlaupinu virti Bolt keppinauta sína að vettugi en greip strax fána Jamaíka, hljóp sigurhring og baðaði sig í sviðsljósinu. Þegar hann kom að sjónvarpsvél fór hann með andlitið að henni, lifti löngutöng og hrópaði: Ég er númer 1, ég er númer 1.

„Mér er sama þótt hann setji sýningu á svið," sagði Jacques Rogge, formaður Alþjóðaólympíunefndarinnar. „En mér finnst að hann ætti að sýna keppinautum sínum meiri virðingu, taka í hendur þeirra, klappa þeim á öxlina eftir hlaupið en ekki haga sér eins og hann gerði í 100 metra hlaupinu."

Þegar Bolt hafði náð miklu forskoti á aðra keppendur um miðbik 100 metra hlaupsins hægði hann á sér, leit í kringum sig, lyfti höndunum og barði sér á brjóst um leið og hann fór yfir marklínuna. Hann setti samt heimsmet, 9,69 sekúndur.  

„Ég skil vel fögnuðinn," sagði Rogge. „(Bolt) kann að hafa túlkað þetta með öðrum hætti en í mínum augum var hann að sega: Náið mér ef þið getið. Þannig hagar maður sér ekki. En hann mun læra af reynslunni. Hann er enn ungur."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert