Snorri Steinn Guðjónsson leikmaður íslenska handboltalandsliðsins er markahæstur leikmanna á Ólympíuleikunum í Peking ásamt Michael Krauss úr þýska liðinu. Báðir hafa þeir skorað 38 mörk, en Snorri Steinn reyndar spilað einum leik meira en Krauss, þar sem Þjóðverja komust ekki upp úr riðlakeppni Ólympíuleikanna. Guðjón Valur Sigurðsson er í 4. sæti yfir markahæstu menn með 33 mörk og Alexander Petersson er í 8. - 12. sæti með 27 mörk. Næsti Íslendingur á markaskoraralistanum er svo Arnór Atlason í 25. - 32. sæti með 21 mark og Ólafur Stefánsson hefur skorað 19 mörk og er í 37. sæti yfir markahæstu leikmenn hingað til.
Flestar stoðsendingar í keppninni hafa þeir Arnór Atlason og Nikola Karabatic, leikmaður Frakklands átt, eða 27 talsins. Skammt á eftir þeim kemur svo Ólafur Stefánsson með 26 stoðsendingar. Guðjón Valur Sigurðsson er í 29. - 38. sæti á þeim lista með 9 stoðsendingar.
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson eru báðir í 3. - 9. sæti yfir þá sem stolið hafa flestum boltum á mótinu. Báði hafa stolið 6 boltum hvor.
Þá er Sverre Jakobsson í 2. sæti á listanum yfir flest varin skot í vörn, með 13 varin skot. Ingimundur Ingimundarson er í 10. - 13. sæti á sama lista með 6 varða bolta. Sverre er jafnframt í 2. - 4. sæti yfir flesta brottrekstra allra á mótinu. Hann hefur 7 sinnum fengið tveggja mínútna brottvísun í keppninni.
Á markvarðalistanum er Björgvin Páll Gústavsson í 13. sæti með 32% markvörslu og Hreiðar Levy Guðmundsson í 17. - 18. sæti með 28% markvörslu.