„Þetta verður bara enn eitt verkefnið fyrir okkur sem lið og í raun skipti það engu máli hvort við hefðum fengið Spán eða Suður-Kóreu. Það eru bara erfiðir leikir í þessari keppni,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, þegar ljóst var að Spánverjar verða mótherjar Íslands í undanúrslitum á ÓL í Peking. Spánverjar lögðu Suður-Kóreu í 8-liða úrslitum, nokkuð örugglega, 29:24, og var Guðmundur þegar farinn að klippa saman myndband af leikjum Spánverja ásamt aðstoðarmönnum sínum, Gunnari Magnússyni og Óskari Bjarna Óskarssyni.
„Við munum ekki sofa mikið í nótt, við erum rétt að byrja, en það er til nóg af kaffi handa okkur og eitthvað af íslensku sælgæti. Við kvörtum ekki,“ sagði Guðmundur rétt fyrir miðnætti að kínverskum tíma en þá sat hann við vinnu á meðan leikmennirnir voru að hvíla sig. Að mati Guðmundar hafa Spánverjar bætt leik sinn jafnt og þétt.
Nánar er rætt er við Guðmund Þórð landsliðsþjálfara um undirbúninginn fyrir Spánarleikinn á morgun í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.