Þetta var fyrst og fremst trú á að við gætum þetta, sagði Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins við Sjónvarpið eftir leikinn við Spánverja. Hann sagði að Íslendingar hefðu getað leyft sér að klikka á 12-13 dauðafærum. „Það sýnir hvað við erum geðveikt góðir," sagði Ólafur.
Hann nefndi sérstaklega Loga Geirsson, sem skoraði 7 mörk í leiknum. Sagði Ólafur að Logi gæti búið til mörk úr engu. „Í mínum huga er hann Ódysseifur, án hans hefðum við ekki getað þetta," sagði Ólafur.
Logi sagði við Sjónvarpið, að það væri einn leikur eftir og íslensku leikmennirnir yrðu að vera á jörðinni. „Við ætlum að sýna þar hvað í okkur býr," sagði hann.
Snorri Steinn Guðjónsson sagði að það væri draumur allra að komast á pall á ólympíuleikum og tilfinningin að fá að spila til úrslita væri ólýsanleg.