Fyrir marga hjátrúarfulla Íslendinga skiptir það heilmiklu máli hvort íslenska handboltalandsliðið mun leika í bláum eða rauðum búningum gegn Spánverjum í dag. Morgunblaðið hafði samband við Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóra HSÍ sem staddur er með landsliðinu í Peking og staðfesti Einar að íslenska liðið myndi leika í rauðum búningum gegn Spáni.
Ísland hefur leikið sex handboltaleiki á Ólympíuleikunum í Peking. Liðið hefur klæðst bláum búningum þrívegis og rauðum búningum jafn oft. Aðeins einum leik af þessum sex hefur Ísland tapað, leiknum við Suður-Kóreu. Í þeim leik lék Ísland í bláum búningum. Flestir eru á því að slakasti leikur Íslands í keppninni hafi verið gegn Egyptum, þegar jafntefli var knúið fram á lokaandartökunum, eftir að hafa verið undir nær allan leiktímann. Í þeim leik lék Ísland einnig í bláum búningum. Þeir bláu þurfa þó ekki að vera alslæmir því í fyrsta leik, gegn Rússum, lék Ísland í bláu og hafði sigur.
Niðurstaðan er þó sú Ísland hefur tapað þremur stigum í bláum búningum en einungis einu stigi í rauðu búningunum, miðað við að tvö stig séu fyrir sigur, eitt fyrir jafntefli og núll fyrir tap.
Þegar rýnt er í úrslit leikja Íslands á Ólympíuleikunum má sjá að í öllum þeim leikjum sem Ísland hefur haft sigur eða gert jafntefli hefur liðið skorað annaðhvort 32 eða 33 mörk í leiknum. Spurning er hins vegar hvort það segi eitthvað, en engu að síður skemmtileg staðreynd.
Hjátrúarfullir ættu því að taka gleði sína yfir því að Ísland leiki í rauðu gegn Spáni í dag, því ennþá hefur Ísland ekki beðið ósigur þegar liðið hefur leikið í þeim lit.