Rússar leika um 5. sætið

Kasper Nielsen skorar fyrir Dani gegn Króötum fyrr á ÓL.
Kasper Nielsen skorar fyrir Dani gegn Króötum fyrr á ÓL. Reuters

Rússar leika um 5. sætið í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í Peking. Það varð ljóst í morgun þegar þeir unnu Dani, 28:27, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14. Rússar mæta Pólverjum, sem lögðu Suður Kóreu, 29:26. Rússar skoruðu þrjú síðustu mörkin í leiknum við Dani sem voru með tveggja marka forskot þegar tvær mínútur voru eftir af leiktímanum.

Danir spila þar með um 7. sætið við Suður-Kóreu aðfaranótt næsta sunnudags að íslenskum tíma.

Rússar höfðu frumkvæðið framan af leik við Dani en Evrópumeistararnir sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik og tókst að komast yfir þegar um tíu mínútur voru eftir. Þegar tvær mínútur voru eftir höfðu Danir tveggja marka forskot, 27:25, en Rússarnir sýndu mikla seiglu á lokakaflanum og skoruðu þrjú síðustu mörkin.

Lars Christiansen skoraði 8 mörk fyrir Dani og var markahæstur. Næstu honum við markaskorun voru þeir Jesper Nöddesbo og Kasper Søndergård með sex mörk hvor.   Timur Bibirov skoraði mest fyrir Rússa, átta mörk.

Ef marka má umfjöllun danskra fjölmiðla virtist danska liðið lítinn áhuga hafa á leiknum. Haft er eftir Ulrik Wilbek, þjálfara, að nokkrir leikmannanna hafi ekki verið andlega undirbúnir undir þennan leik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert