Geir Sveinsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, þekkir vel þá stöðu sem landsliðið er komið í á Ólympíuleikunum í Peking. Geir var fyrirliði landsliðsins á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 þar sem fjórða sætið varð hlutskipti Íslendinga en Íslendingar töpuðu fyrir Samveldi sjálfstæðra ríkja (fyrrum Sovétríkjunum) í undanúrslitunum, 23:19, og töpuðu svo leiknum um bronsverðlaunin fyrir Frökkum, 24:20.
„Þetta eru leikir sem seint líða úr minni manns og ef ég mætti velja einn leik sem ég myndi vilja spila aftur þá er það leikurinn við Sovétmenn í undanúrslitunum. Við vorum svo nálægt því að vinna til verðlauna því þegar innan við stundarfjórðungur var til leiksloka vorum við einu marki yfir. Úrslitin voru gríðarleg vonbrigði og ekki tók betra við í leiknum við Frakka um bronsið. Það var leikur þar sem við náðum okkur aldrei á strik og ég held svei mér þá að það sé betra að enda í sæti númer 7-8 en í fjórða sæti,“ sagði Geir í samtali við Morgunblaðið í gær.
„Miðað við þá stöðu sem liðið er komið í, þá spilamennsku sem það hefur sýnt á mótinu og þennan samstillta hóp leikmanna og þjálfarateymis er það engin tilviljun að liðið er komið í undanúrslitin. Mér sýnist að andlegi undirbúningurinn, sem hefur svo mikið að segja, hafi verið gríðarlega góður og hann hafi í raun og veru verið löngu byrjaður fyrir leikana. Þar á fyrirliðinn Ólafur Stefánsson mikinn og stóran þátt. Eftir HM í Þýskalandi var hann svekktur hvernig gekk og eftir það fór hann í gang og maður sá hvert hugur hans stefndi. Sagan er kannski meira með Spánverjunum en ég held að þegar út í svona leik er komið þá hafi það ekkert að segja. Og alveg eins og ég gerði gagnvart Pólverjunum þá met ég möguleikana 50/50. Ég heyrði í þjálfara Barcelona í gær og hann tjáði mér að spænska liðið hefði spilað sinn langbesta leik í keppninni í sigurleiknum á móti Suður-Kóreu og fyrir honum hefði birst nýtt og betra lið. Eflaust kveikir þessi sigur meiri neista í spænska liðinu,“ sagði Geir.
Lengra viðtal er við Geir Sveinsson í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.