Búið er að slíta ólympíuleikunum í Peking. Þeir stóðu yfir í 16 daga og framkvæmdin þótti nánast gallalaus af hálfu Kínverja. Ýmislegt, sem óttast var að myndi setja strik í reikninginn, svo sem mikil loftmengun í Peking og lofthiti, truflaði ekki leikana að ráði.
Leikarnir hafa að mestu leyti skilað Kínverjum þeirri jákvæðu athygli sem þeir vonuðust til. Þá hafa verið unnin ótrúleg íþróttaafrek, svo sem heimsmet Jamaíkamannsins Usain Bolts í 100 og 200 metra hlaupi karla og 8 gullverðlaun sem bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps vann. Íslendingar geta einnig vel við unað með silfurverðlaun í handbolta.
Alls voru sett 43 heimsmet og 132 ólympíumet á leikunum. Kínverjar fengu flest gullverðlaun eða 51, næstir komu Bandaríkjamenn með 36 og Rússar með 23. Bandaríkjamenn fengu hins vegar flest verðlaun á leikunum eða 110, Kínverar 100 og Rússar 72. Alþjóðaólympíunefndin var gagnrýnd fyrir að velja Peking sem gestgjafaborg en Jacques Rogge, forseti nefndarinnar, sagði að sú ákvörðun hefði reynst réttlætanleg þar sem allt hefði tekist eins og best væri á kosið.
Mannréttindasamtök hafa hins vegar gagnrýnt Rogge og ólympíunefndina harðlega fyrir að leyfa Kínverjum að bæla niður andóf og takmarka aðgang fjölmiðla að upplýsingum.
Sophie Richardson, talsmaður Mannréttindavaktarinnar, sagði að umfangsmikil mannréttindabrot hefðu verið framin í skjóli ólympíuleikanna. Fólk hefði verið flutt nauðugt á brott, fjöldi manns hefði verið handtekinn og mannréttindi þverbrotin. „Enginn þjóðarleiðtogi, sem sótti leikana, eða meðlimir í Alþjóðaólympíunefndinni notaði tækifærið og gagnrýndi hegðun kínverskra stjórnvalda með ákveðnum hætti."
Næstu ólympíuleikar verða haldnir í Lundúnum árið 2012. Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, tók við ólympíufánanum úr hendi Rogges. Í sérstöku kynningaratriði fyrir Lundúni komu m.a. söngkonan Leona Lewis og gítarleikarinn Jimmy Page og fluttu gamalt Led Zeppelinlag. Knattspyrnumaðurinn David Beckham sparkaði síðan fótbolta út á leikvanginn.
Spænski tenórsöngvarinn Plácido Domingo og kínverska sópransöngkonan Song Zuying fluttu lokalag leikanna.