Gríska ólympíunefndin hefur ákveðið að meina þrístökkvaranum Voula Papachristou að taka þátt í Ólympíuleikunum eftir að hún hæddist að fólki frá Afríku á Twitter-síðu sinni fyrir skömmu.
Þetta var ákveðið í dag og situr því Papachristou eftir með sárt ennið heima í Aþenu. Gríska ólympíunefndin ákvað að taka hart á málinu og senda þar með skýr skilaboð til íþróttamanna sinna um að halda sig innan siðferðismarka þegar kemur að skilaboðum og samskiptum á samfélagsmiðlum.
Papachristouer, sem hefur beðist afsökunar á gönuhlaupi sínu á Twitter, er að vonum vonsvikin yfir ákvörðun grísku ólympíunefndarinnar. Hún vísar því alfarið á bug að vera haldin kynþáttafordómum þrátt fyrir ummæli sín á Twitter sem hún segist skammast sín fyrir. Um leið biður hún fjölskyldu sína, vini, þjálfara og liðsmenn gríska keppnisliðsins afsökunar.