Íslensku keppendurnir sem taka þátt í Ólympíuleikunum gengu inn á leikvanginn með Ásdísi Hjálmsdóttur spjótkastara í broddi fylkingar. Ásdís er önnur íslenska konan sem fær þetta hlutverk á setningarhátíð sumarleikanna en Guðrún Arnardóttir var fánaberi á leikunum í Sydney árið 2000. Ásdís keppti á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þetta eru því aðrir leikarnir hennar. Íslensku keppendurnir brostu sínu blíðasta og veifuðu til áhorfendanna 80 þúsund sem fylgjast með setningarathöfninni.
27 keppendur frá Íslandi taka þátt í leikunum.
Í stúkunni sáust í beinni útsendingu forseti Íslands og frú, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff. Ólafur var með bindi í íslensku fánalitunum og veifuðu forsetahjónin til íslensku þátttakendanna.